Óþægt fé og sjaldséðir bílar í undraheimi Landmannaafréttar

Ljósmynd/Roar Aagestad

Smalamennska hefur gengið vel hjá fjallmönnum á Landmannaafrétti. Þeir voru að koma með safnið að Valahnúkum síðdegis í gær, þegar blaðamaður náði tali af fjallkónginum, og verið að smala hnúkana, Sölvahraun og fleiri svæði þar. Rekið var í safngirðingu í gær og  verða Landréttir við Áfangagil á fimmtudag og hefjast klukkan 12.

„Það hefur gengið feiknarlega vel, veðrið er gott en féð óþægt eins og er í svona veðri hjá okkur á fjöllunum,“ segir Kristinn Guðnason, bóndi í Árbæjarhjáleigu II og fjallkóngur á Landmannaafrétti.

Landmenn og Holtamenn reka fé sitt á Landmannaafrétt og búendur tveggja bæja í Rangárvallahreppi gera þangað fjallskil. Afrétturinn er gífurlega víðáttumikill, að miklum hluta há fjöll og öræfi og víða langt á milli haga. Víða er torfært enda stendur fyrsta leit í viku. Menn leita eingöngu á hestum og fótgangandi, fjórhjól nýtast ekki.

Kristinn segir að ekki séu nein vandræði með að fá mannskap í smalamennskur, vandamál hans sé að fleiri vilji koma en hann ráði við að taka. Við 30-40 fjallmenn bætast unglingar sem koma á móti til að hjálpa við að reka safnið og ýmsir áhugamenn. Telur Kristinn að 70-80 manns hafi verið í Jökulgili á laugardag. Það er eini dagur ársins sem vélknúin ökutæki fá að fara í Jökulgil. Hrikalegt og marglitt landslagið er undraheimur. helgi@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »