Erlendir miðlar fjalla um hryðjuverkaógnina

Guardian og BBC voru á meðal þeirra sem fjölluðu um …
Guardian og BBC voru á meðal þeirra sem fjölluðu um fréttir gærdagsins. Samsett mynd

Stórir erlendir miðlar fjölluðu í gær um hryðjuverkaógnina í „friðsælasta landi í heimi“.

Fjórir voru handteknir af sérsveitinni í fyrradag en skipulagðar árásir mannanna voru taldar yfirvofandi á næstu dögum.

CNN fjallaði um handtöku á fjórum sem grunaðir voru um skipulagningu hryðjuverka í „fordæmalausri“ aðgerð lögreglunnar. Þá kom fram að þeir grunuðu hefðu verið undir rannsókn fyrir „fyrirhugaða framleiðslu og sölu skotvopna“.

Í frétt Guardian er sérstaklega fjallað um hversu friðsælt land Ísland er, glæpatíðni sé lág og ofbeldi sjaldgæft. „Þó aukning ofbeldisglæpa undanfarin ár hafi valdið yfirvöldum áhyggjum,“ segir í fréttinni.

Frá upplýsingafundi lögreglu vegna aðgerða sérsveitarinnar í fyrradag.
Frá upplýsingafundi lögreglu vegna aðgerða sérsveitarinnar í fyrradag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þá er greint frá því að íslenskir fjölmiðlar hafi sagt lögreglu vera að kanna hugsanleg tengsl við norræna hægriöfgahópa. Í fréttinni er sérstaklega fjallað um norrænu mótstöðuhreyfinguna Norðurvíg en samtökin sendu frá sér yfirlýsingu í gær þar sem þeir sögðu hreyfinguna ekki tengjast neinum öfgahópum og að ekki væri fólk innan þeirra raða sem ætlaði sér að fremja hryðjuverk.

AFP fréttaveitan minntist einnig á að Ísland væri oft talið „friðsælasta land í heimi,“ og að sögn lögreglunnar væri þetta líklega í fyrsta sinn sem að farið væri í rannsókn af þessu tagi á Íslandi.

Þá gekk breska götublaðið The Sun svo langt að segja í fyrirsögn að „áform um fjöldamorð öfgahægrimanna“ hefðu verið stöðvuð á Íslandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina