Dyravörður kýldi mann ítrekað í höfuðið

Ekki er vitað um áverka þess sem dyravörðurinn er grunaður …
Ekki er vitað um áverka þess sem dyravörðurinn er grunaður um að hafa ráðist á. mbl.is/Árni Sæberg

Um klukkan hálftvö í nótt fékk lögregla tilkynningu um líkamsárás á veitingastað í miðbænum þar sem dyravörður var grunaður um að hafa kýlt mann ítrekað í höfuðið. Ekki er vitað um áverka þess sem hann kýldi, að því er segir í tilkynningu frá lögreglu.

Þá var maður handtekinn í hverfi 108 rétt fyrir klukkan hálfníu í gærkvöldi, grunaður um líkamsárás, akstur undir áhrifum fíkniefna og sviptur ökuréttindum. Maðurinn var vistaður í fangageymslu lögreglu vegna rannsóknar málsins. Ekki er vitað um áverka fórnarlambsins.

Maður var einnig handtekinn í Hafnarfirði um hálfátta í gærkvöldi, grunaður um líkamsárás.  Maðurinn var vistaður í fangageymslu lögreglu vegna rannsóknar málsins. Ekki er vitað um áverka fórnarlambsins.

Rétt eftir klukkan eitt í nótt var tilkynnt um rafskútuslys í miðbænum. Maður hafði fallið af rafskútu og rotast. Í tilkynningu til lögreglu var maðurinn sagður meðvitundarlaus og með blæðingu frá höfði. Hann var fluttur af vettvangi með sjúkrabíl. Maðurinn er grunaður um að hafa reynt að stjórna rafskútunni undir áhrifum áfengis.

mbl.is