„Hamast við að vinna í þessu“

Ferðamenn í Reynisfjöru.
Ferðamenn í Reynisfjöru. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vinna stendur enn yfir við uppsetningu nýs viðvörunarkerfis í Reynisfjöru. „Það er verið að hamast við að vinna í þessu,“ segir Björn Ingi Jónsson, verkefnastjóri almannavarna hjá lögreglustjóranum á Suðurlandi.

„Það er keppikefli allra að þetta fari upp sem allra fyrst,“ bætir hann við.

Viðvörunarkerfið á að vara við hættunni sem getur skapast í Reynisfjöru, en þar hafa orðið banaslys þegar öldur hafa hrifið fólk með sér á haf út. Erlendur ferðamaður lést þar í júní síðastliðnum.

Töluverð vinna

Spurður segir Björn Ingi vinnuna vera töluverða. Eitt viðvörunarskilti verður sett upp með viðvörunarljósum, auk fleiri skilta. Þangað til verða skiltin sem fyrir eru höfð uppi til að vara ferðamenn við hættunni.

Hann býst við því að nýju skiltin fari upp annað hvort í þessari eða næstu viku. Verið er að ljúka við hönnun á þeim auk þess sem verið er að grafa fyrir undirstöðum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert