Tónhöfundar beri skarðan hlut frá borði

Guðrún Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri STEFs, segir tekjur þeirra sem skapa …
Guðrún Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri STEFs, segir tekjur þeirra sem skapa tónlistina engan veginn hafa vaxið í samræmi við vöxt markaðarins. Ljósmynd/Ragnheiður Arngrímsdóttir

GESAC, Evrópusamtök höfundaréttarfélaga, sem STEF, félagasamtök tón- og textahöfunda á Íslandi eiga aðild að, sendu nýlega frá sér skýrslu um streymismarkaðinn. Skýrslan sú kemur í kjölfar stigvaxandi gagnrýni og krafna tónlistarfólks, ekki síst höfunda, um sanngjarnari tekjuskiptingu af streymi.

„Streymismarkaðurinn hefur vaxið gríðarlega á undanförnum árum, en tekjur þeirra sem skapa tónlistina hafa þó engan veginn vaxið í samræmi við vöxt markaðarins,“ segir Guðrún Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri STEFs, í samtalið við mbl.is. Segir hún niðurstöðu skýrslunnar þá, að þóknun til höfunda sé óviðunandi lág miðað við mikilvægi þeirra framlags.

Smelladrifinn markaður

Kveður Guðrún vöxt í fríum áskriftum ekki hafa skilað sér til höfunda auk þess sem hún telur að streymisveitur hvetji ekki nægilega þá sem nýta sér slíka þjónustu að skipta yfir í greiðsluáskrift. Þá hafi áskriftargjald haldist nánast óbreytt óbreytt frá upphafi, þrátt fyrir að lögum á veitunum hafi fjölgað gífurlega frá þeim tíma og gæði þjónustunnar aukist verulega. Hafi þetta leitt til þess að meðaltekjur af hverjum notanda hafi lækkað stöðugt með hliðsjón af verðbólgu og ýmiss konar tilboðs- og fjölskylduáskriftum, sem farið hefur fjölgandi.

Guðrún segir streymismarkaðinn mjög smelladrifinn þar sem tiltölulega fá lög njóti að heita má óeðlilega mikils streymis. „Það sýnir sig í því, að aðeins 57.000 flytjendur, 0,7 prósent af um það bil 8 milljónum, stóðu undir 90 prósentum af öllu streymi á Spotify í mars 2021 þegar úttekt var gerð á stöðunni, auk þess sem 93 prósent flytjenda höfðu færri en 1.000 mánaðarlega hlustendur sem dugar skammt til að geta lifað af listinni,“ segir Guðrún.

Enn fremur segir hún öflugt algrím og áherslu Spotify á að setja í forgang og forgrunn lagalista með vinsælustu lögunum ýta undir misvægi milli þeirra tiltölulega fáu sem njóti mesta streymis og hinna sem vart ná upp á yfirborðið.

Skerfur höfunda of lágur

„Aukinheldur skekkja „gervi“-flytjendur og -höfundar myndina, en erfitt getur verið að henda reiður á því hvað er manngert og ekta, því gegnsæið er takmarkað,“ segir framkvæmdastjórinn. Skýrsluhöfundar hvetji til aukins gegnsæis og að streymisveitum verði gert að stuðla að fjölbreytni hvað varðar tónlistarstefnur, tungumál og uppruna flytjenda og þeirra sem skapa tónlistina.

„Vöxtur streymisveita hefur vissulega eflt tónlistariðnaðinn. Hins vegar hefur tekjuskiptingin fyrst og fremst verið útgefendum og flytjendum í hag, en skerfur höfunda er of lágur. Áætlað er að veiturnar haldi eftir 30-34 prósentum teknanna. Um 55 prósent koma í hlut útgefenda og flytjenda, en aðeins 15 prósent falla höfundum í skaut,“ segir Guðrún.

Skýrsluhöfundar leggi áherslu á að „tekjukakan“ verði stækkuð og að áhersla verði lögð á að stækka skerf höfunda. Þá gætu veiturnar einnig gert þjónustu sína höfundavænni, svo sem með því að gera fólki kleift að leita að tónlist eftir tiltekna höfunda en ekki bara flytjendur svo og að stuðla að fjölbreytni og meiri sýnileika minni listamanna með hliðsjón til dæmis af tungumálum og menningarsvæðum, segir framkvæmdastjórinn að lokum.

Hér má lesa útdrátt úr skýrslu GESAC

Heimasíða GESAC

mbl.is