Kaupa Norðurhús við Austurbakka af Landsbankanum

Hreiðar Bjarnason, framkvæmdastjóri fjármála og rekstrarsviðs Landsbankans, Lilja Björk Einarsdóttir …
Hreiðar Bjarnason, framkvæmdastjóri fjármála og rekstrarsviðs Landsbankans, Lilja Björk Einarsdóttir bankastjóri, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.

Ríkið hefur skrifað undir samning um kaup á Norðurhúsi við Austurbakka af Landsbankanum, en um er að ræða tæplega 6 þúsund fermetra byggingu sem er hluti af nýframkvæmdum bankans við Austurhöfn. Kaupverðið er áætlað um sex milljarðar miðað við fullfrágengið húsnæði, eða um eina milljón á hvern fermetra.

Fyrirhugað er að utanríkisráðuneytið færi starfsemi sína í bygginguna, en ásamt því verður hluti hennar notaður undir sýningar- og menningartengda starfsemi á vegum Listasafns Íslands þar sem einkum verður horft til samtímalistar. Frá þessu er greint í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Skoða tengingu við Hörpu og Listaháskóla

Í tilkynningunni segir að töluverð tækifæri séu til staðar til að tengja fyrirhugað sýningarrými við þá menningarstarfsemi sem þegar fari fram í Hörpu og síðar Listaháskóla Íslands sem koma á fyrir í Tollhúsinu.

Stuðlaberg komið á hluta nýbyggingar Landsbankans.
Stuðlaberg komið á hluta nýbyggingar Landsbankans. mbl.is/Árni Sæberg

„Húsnæðiskostur Stjórnarráðsins er háður miklum annmörkum - húsnæði ráðuneytanna er sundurleitt, á mörgum stöðum og í mörgum tilfellum úrelt. Einnig hefur verið lögð áhersla á að ráðuneyti séu staðsett í námunda við hvert annað til að styrkja samstarf þeirra og skapa tækifæri til hagræðingar og samnýtingar á þjónustu. Áfram verður unnið að úrbótum í húsnæðismálum annarra ráðuneyta,“ segir í tilkynningunni, en meðal annars er vísað til þess að utanríkisráðuneytið muni næsta haust missa stóran hluta húsnæðis síns sem það hefur haft á leigu.

„Með flutningi utanríkisráðuneytisins í Norðurhús Austurbakka verður starfseminni komið fyrir á einum stað í sveigjanlegu og nútímalegu húsnæði sem verður nýtt með hagkvæmum hætti,“ segir jafnframt í tilkynningunni.

Húsnæðið verður keypt fyrir andvirði sérstakrar viðbótararðgreiðslu frá Landsbankanum til ríkissjóðs sem þegar hefur verið innt af hendi og nemur kaupverðið um 6 milljörðum miðað við fullfrágengið húsnæði.

Ríkið skoðar kaup á gamla Landsbankahúsinu

Samhliða þessu hefur ríkið ákveðið að ganga til samninga við Landsbankann um kaup á gamla Landsbankahúsinu við Austurstræti. „Sú bygging er eitt af helstu kennileitum borgarinnar og menningarsögulega verðmæt sem slík. Það telst því álitlegur kostur að byggingunni verði fundið verðugt hlutverk í íslensku samfélagi, t.a.m. undir starfsemi dómstóla en endurskipuleggja þarf húsnæðismál þeirra til lengri tíma,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert