Loka leikskóla vegna skólpmengunar

Börnin mæta næst í leikskóla á miðvikudaginn.
Börnin mæta næst í leikskóla á miðvikudaginn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Leikskólanum Grandaborg í Vesturbæ hefur verið lokað vegna framkvæmda sem talið er nauðsynlegt að ráðast í, en í skriðkjallara undir nýrra húsi leikskólans hefur skólplögn farið í sundur og hefur mengun greinst í jarðvegi.

Þetta kemur fram í bréfi sem foreldrar barna á leikskólanum fengu sent í vikunni.

Í bréfinu kemur fram að nauðsynlegt sé að fjarlægja allan jarðveg og athuga hvort að mengun hafi mögulega borist í loftræstikerfi hússins sem er á steyptum fleti í kjallaranum.

Segir að það sé mat heilbrigðiseftirlitsins og skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar að nauðsynlegt sé að loka leikskólanum og flytja starfsemina. Í framhaldi mun verkfræðistofan Efla framkvæma ítarlega úttekt á húsinu.

Ekki liggur fyrir hversu langan tíma framkvæmdir munu taka en haldinn verður fundur fyrir foreldra síðdegis á mánudaginn til að upplýsa þá um stöðuna.

Fyrstu vísbendingar sumarið 2021

Í bréfi borgarinnar kemur fram að talsvert hafi verið um veikindi meðal starfsfólks leikskólans, og því hafi sérfræðingar á verkfræðistofunni Eflu farið yfir húsnæðið.

Þá kemur einnig fram að fyrstu vísbendingar um slæma innvist hafi komið fram sumarið 2021. 

„Frá því að fyrstu vísbendingar bárust um slæma innivist sumarið 2021 hefur verið unnið að endurnýjun á húsnæði skólans og hefur það verið reglulega skoðað af starfsfólki heilbrigðiseftirlits og verkfræðistofu sem ráðin var til að hafa umsjón með verkinu. Hins vegar hefur nú komið í ljós að það er þörf á að ráðast í tafarlausar frekari framkvæmdir,“ segir í bréfinu.

Flutt á þrjá mismunandi staði

Ekkert tiltækt húsnæði er til staðar sem rúmar öll börn leikskólans með svo skömmum fyrirvara. Leikskólabörnin verða því send á þrjá staði; á Ævintýraborgina við Nauthólsveg, í Kringluna og á Ævintýraborgina við Eggertsgötu.

Hvorki verður hægt að taka á móti börnunum á mánudag né þriðjudag en að morgni miðvikudags fá þau að mæta.

mbl.is