Segir Strætó hafa notið góðs af niðurgreiðslum

Strætó fékk um 900 milljónir frá ríkinu í fyrra.
Strætó fékk um 900 milljónir frá ríkinu í fyrra. mbl.is/Árni Sæberg

Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, segir Strætó hafa notið góðs af niðurgreiðslum ríkisins á rafbílum vegna þess að virðisaukaskattur á rafvögnum hafi þá einnig verið endurgreiddur til byggðasamlagsins.

mbl.is fjallaði um það í gær að ríkið hefði varið níu milljörðum í niðurgreiðslur á raf- og tvinnbílum á síðasta ári en aðeins stutt Strætó um tæpan milljarð.

„Við höfum þannig notið góðs af þessum níu milljörðum. Við erum með fimmtán rafvagna í umferð og eigum von á tíu á næsta ári,“ segir Jóhannes í samtali við mbl.is, spurður út í umfjöllun gærdagsins.

Milljarða fjárfesting í rafvagna

Hann segir að styrkur ríkisins upp á 900 milljónir hafi dugað til þessa, fyrir utan í faraldrinum, og lagt sé upp með að verja 300 milljónum á ári í endurnýjun á flotanum.

„Ef við ætluðum að skipta út öllum díselflotanum þá værum við að tala um ansi marga milljarða á einu bretti. En þær 300 milljónir sem við notum á ári í fjárfestingar er planið til þess að gera á flotann kolefnislausan árið 2030.“

1,5 milljarða á ári frá ríkinu

Jóhannes leggur áherslu á að Strætó þurfi að verja um 300-350 milljónum á ári til þess að ná þessu markmiði. Verðlagshækkanir í kjölfar stríðsins í Úkraínu hafi vissulega sett strik í reikninginn.

Aðspurður segir hann að Strætó þyrfti að lágmarki um 1,5 milljarða á ári ef allar hans tekjur ættu að koma frá ríkinu. En í umfjöllun gærdagsins var greint frá því að það tæki um 1,8 milljarða á ári frá ríkinu til þess að gera Strætó gjaldfrjálsan.

„En ef við værum að sækja allt sem við þyrftum til ríkisins þá værum við að tala um 1.500 milljónir að lágmarki. En það er svo sem ekki í pípunum.“

mbl.is