Þú dóst ekki nógu mikið, Ingvar!

Ingvar Jóel Ingvarsson hefur lifað ævintýralegu lífi.
Ingvar Jóel Ingvarsson hefur lifað ævintýralegu lífi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eftir að Ingvar Jóel Ingvarsson hafði farið í hjartastopp í aðgerð, þar sem skipt var um hjartaloku, var settur í hann gangráður. Það er mun smærri aðgerð og sjúklingurinn vakandi á meðan. Nema hvað hjartað í honum stöðvaðist þá öðru sinni.

„Þeir náðu mér til baka eftir 93 sekúndur. Ég horfði beint í andlitið á lækninum þegar ég vaknaði og sá í augunum að hann var skelfingu lostinn. Það er ekkert bull í bíómyndunum þegar sjúklingurinn tekur mikil andköf við svona aðstæður. Ég heyrði beinlíns í sjálfum mér þegar ég náði andanum aftur. Það voru sjö kandídatar inni á stofunni og ég held að þau hafi öll þurft áfallahjálp. Það þurfti að brjóta mig allan upp og það smellur enn þá í bringunni á mér. Þeir kalla það traustabresti,“ segir Ingvar Jóel.

– Manstu eitthvað eftir þessu? Upplifðirðu eitthvað meðan hjartað var stopp?

„Já, ég tel svo vera. Mér leið eins og ég væri á fleygiferð inni í einhverju rými. Allt var ljósgrátt og rýmið fullt af gluggum og hurðum sem öll voru lokuð. Mér leið eins og að ég sæti í stól sem hringsnerist og væri að leita að útgönguleið. Hana fann ég ekki enda allt lokað. Ekki hefði þurft að spyrja að leikslokum hefði gluggi eða hurð verið opin.“

Hann segir einn læknanna hafa velt þessu fyrir sér á eftir og spurt hvort hann hefði séð eitthvað fyrir handan. „Ég lýsti þessu fyrir honum og að því loknu kom stutt þögn. Síðan sagði hann: „Þú dóst ekki nógu mikið, Ingvar!““

Hann hlær.

Nánar er rætt við Ingvar Jóel í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins en hann vakti mikla athygli á dögunum þegar hann felldi vindmylluna í Þykkvabænum. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »