Fimmti hver skipaður án auglýsingar

Stjórnarráðið.
Stjórnarráðið. mbl.is/Árni Sæberg

Í um 20% embættisskipana á árunum 2009 til 2022 var um að ræða flutning embættismanns án auglýsingar. Þetta kemur fram í samantekt forsætisráðuneytisins.

Þjóðminjavörður var skipaður í embætti án auglýsingar af Lilju Alfreðsdóttur menningarmálaráðherra í ágúst. Ferlið sætti nokkurri gagnrýni í kjölfarið.

267 gerðar í kjölfar auglýsingar

Nær samantektin til 334 embættisskipana og voru 267 þeirra gerðar í kjölfar auglýsingar en í 67 tilfellum voru embættismenn fluttir í önnur embætti, ýmist á grundvelli flutningsheimildar í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins eða sérstakra lagaheimilda.

Flestir flutningar áttu sér stað þegar skipað var í embætti ráðuneytisstjóra. Alls voru átta ráðuneytisstjórar skipaðir í kjölfar auglýsingar á tímabilinu en ellefu embættismenn voru fluttir í embætti ráðuneytisstjóra.

Tveir af þeim flutningum voru gerðir á grundvelli breytinga á skipan ráðuneyta.

mbl.is