Óháðum fagaðila falið mál Árna Heimis

Lára Sóley Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands.
Lára Sóley Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

Stjórn og framkvæmdastjóri Sinfóníu Íslands hafa ákveðið að fela óháðum fagaðila að skoða mál Árna Heimis Ingólfssonar, fyrrverandi tónlistarstjóra Sinfóníunnar. 

Þetta staðfestir Lára Sóley Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Sinfóníunnar, í samtali við mbl.is. Hún segir að fagaðilanum verið falið að skoða málið í kjölinn og að sú vinna muni fara strax af stað. 

Á fimmtudaginn steig Bjarni Frí­mann Bjarna­son,  fyrrverandi tónlistarstjóri Íslensku óperunnar og fyrrverandi aðstoðarhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, fram og greindi frá því að Árni Heimir hefði brotið kynferðislega á sér þegar hann var nemandi hans. Sakaði hann Sinfóníuhljómsveit Íslands um algjört aðgerðaleysi í málinu. 

Síðar ræddi Lára Sóley við mbl.is og sagði Bjarna Frímann ekki hafa viljað fara með málið lengra og það hefði takmarkað þá möguleika sem stjórnendur hefðu haft í stöðunni. 

Ekki í verkefnum fyrir Sinfóníuna

Í skriflegu svari Láru Sóleyjar við fyrirspurn mbl.is segir hún hendur Sinfóníunnar bundnar þegar kemur að því að tjá sig um mál einstakra starfsmanna. 

„Ég get hins vegar staðfest að Árni Heimir, sem áður starfaði sem listrænn ráðgjafi hljómsveitarinnar, er ekki starfsmaður hjá hljómsveitinni og sinnir engum verkefnum fyrir hana,“ segir í svari Láru Sóleyjar. 

Enn fremur segir að farið hafi verið eftir ferlum sem innleiddir voru hjá Sinfóníunni árið 2017 og síðan uppfræðir árið 2021, þegar mál Árna Heimis hafi síðast verið tekið fyrir. 

„Í þeim ferlum felst að þegar slík mál koma inn á okkar borð þá leitum við aðstoðar og ráðleggingar utanaðkomandi og óháðra sérfræðinga. Stjórnendur taka síðan ákvörðun út frá fyrirliggjandi upplýsingum og eðli máls hverju sinni. “

mbl.is