Segir Jón Baldvin haga sér eins og rándýr

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra. mbl.is/Arnþór Birkisson

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, segist hafa beðið Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, um að segja sig frá heiðurssæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík fyrir þingkosningarnar vorið 2007 eftir að hafa fengið vitneskju um mál þar sem Jón Baldvin var sakaður um kynferðisbrot.

„Hann varð við þessari ósk minni en í stað þess að láta þar við sitja og sýna svolitla iðrun og hugarangur vegna framferðis síns fór hann rakleiðis í Silfur Egils og vældi yfir því að ég hefði hafnað honum í heiðurssætið á pólitískum forsendum. Þetta gerði hann vitandi að ég gæti aldrei sagt opinberlega hver var hin raunverulega ástæða fyrir því að ég vildi hann ekki í heiðurssætið. Það var svo ekki fyrr en 5 árum síðar, þegar Guðrún Harðardóttir steig fram, sem ástæðan varð heyrinkunn,“ skrifar Ingibjörg Sólrún í Facebook-færslu sinni.

Tilefnið er grein sem birtist í Stundinni um dagbókarfærslur Þóru Hreinsdóttur frá árinu 1970. Hún var þá 15 ára nemandi Jóns Baldvins í Melaskóla og ræðir þar um meint brot hans gagnvart henni.

Ljótur og ójafn leikur

Ingibjörg Sólrún segist hafa lesið aftur „allar þær 23 sögur sem safnað hefur verið saman af kynferðisbrotum og áreiti JBH á áratuga tímabili“. Í ljós hafi komið ákveðið munstur þar sem hann hafi hagað sér eins og rándýr sem velji bráð sína af kostgæfni.

„Þetta er lýsing á ótrúlega ljótum og ójöfnum leik þar sem kennarinn, skólameistarinn, ráðherrann og sendiherrann misbeitir valdi sínu og sækir að unglingsstúlkum,“ skrifar hún og spyr í framhaldinu hvort ekki sé nóg komið.

Jón Baldvin í Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrra.
Jón Baldvin í Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrra. mbl.is/Árni Sæberg

„Aldrei viðurkennt misgjörðir sínar“

„Ég skrifa þetta vegna þess að Jón Baldvin Hannibalsson hefur aldrei viðurkennt misgjörðir sínar og enn láta margir þær sér í léttu rúmi liggja af því þeim finnst JBH hafa lagt svo margt af mörkum í íslenskri pólitík. Það kemur þessu máli hins vegar ekkert við og menn komast aldrei fram hjá þeirri staðreynd að þann orðstír sem JBH ávann sér á hinum pólitíska vettvangi hefur hann sjálfur lítilsvirt með því að misbeita því valdi sem honum var falið gagnvart fjölmörgum unglingsstúlkum og konum. Þar er ekki öðrum um að kenna,“ skrifar Ingibjörg Sólrún og þakkar Valgerði Þorsteinsdóttur, dóttur Þóru, fyrir að birta dagbókarfærsluna.

Einnig þakkar hún tónlistarmanninum Bjarna Frímanni Bjarnasyni fyrir að sýna kjark með því að greina frá því opinberlega að fyrrverandi tónlistarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands hafi brotið á honum kynferðislega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert