Fjöldahjálparstöð opnuð í skrifstofuhúsnæði

Er fjölgunin talin vera vegna átaka í Úkraínu, samhliða skorti …
Er fjölgunin talin vera vegna átaka í Úkraínu, samhliða skorti á íbúðarhúsnæði fyrir flóttafólk. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Rauði krossinn hefur nú opnað fjöldahjálparstöð fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd vegna þeirrar miklu fjölgunar sem hefur orðið í hópi flóttafólks sem kemur til landsins. Mun fólk gista í skrifstofuhúsnæði í Borgartúni.

Fjölgunin er talin stafa af átökum í Úkraínu, samhliða skorti á íbúðarhúsnæði fyrir flóttafólk. Gert er ráð fyrir að fólk gisti í fjöldahjálparstöðinni í takmarkaðan tíma og fari þaðan í annað húsnæði.

Sérstök aðstaða fyrir fjölskyldufólk

Húsnæðið sem gist verður í er á nokkrum hæðum og talið henta vel í þessum tilgangi að því er fram kemur í tilkynningu. Gert er ráð fyrir sérstakri aðstöðu fyrir fjölskyldufólk.

Rauði krossinn sér um og rekur fjöldahjálparstöðina í nánu samstarfi við Vinnumálastofnun, sem þjónustar umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem og félags- og vinnumarkaðsráðuneytið sem fer með málaflokkinn.

Ekki eru nema fjórir dagar síðan Gylfi Þór Þorsteinsson, aðgerðastjóri við móttöku flóttafólks, sagði fjöldahjálparstöð vera algjört neyðarúrræði sem reynt væri í lengstu lög að grípa ekki til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert