Kvartaði yfir drukknu og öskrandi fólki

Lögreglan að störfum í miðbænum.
Lögreglan að störfum í miðbænum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Starfsmaður hótels í hverfi 105 í Reykjavík tilkynnti um mikinn hávaða frá fólki sem hljómaði drukkið og öskraði ítrekað hvert á annað.

Lögreglan fór á vettvang, að því er kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, þar sem greint er frá verkefnum frá klukkan 23 í gærkvöldi til morguns. Alls komu 18 mál upp á borð lögreglu á þessum tíma.

Íbúi hafði samband við lögreglu vegna tónlistarhávaða sem barst frá samkomusal í miðbæ Reykjavíkur. Lögreglan sinnti sömuleiðis því máli.

Viðurkenndi neyslu fíkniefna

Lögregla kannaði með ástand og réttindi ökumanns í hverfi 104. Ökumaðurinn blés, var yfir mörkum og viðurkenndi neyslu fíkniefna fyrr um daginn. Hann var handtekinn, fluttur á lögreglustöð þar sem dregið var úr honum blóð í þágu rannsóknar málsins. Ökumaðurinn var látinn laus úr haldi lögreglu að sýnatöku lokinni.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Á ótryggðri bifreið

Lögregla hafði afskipti af ökumanni í hverfi 221 í Hafnarfirði. Bifreiðin reyndist ótryggð og voru skráningarnúmer fjarlægð af henni. Ökumaðurinn blés, var yfir mörkum og var því handtekinn vegna gruns um ölvunarakstur. Hann fluttur á lögreglustöð þar sem dregið var úr honum blóð. Að sýnatöku lokinni var ökumaðurinn látinn laus úr haldi lögreglu.

Vaknaði upp við þjófavarnarkerfi

Íbúi fjölbýlishúss í hverfi 200 í Kópavogi vaknaði upp við þjófavarnarkerfi sem hann taldi koma frá bifreið í bifreiðageymslu. Lögreglan fór á vettvang og hafði samband við skráðan eiganda bifreiðarinnar sem tók málið í sínar hendur.

mbl.is