„Auðvitað hefðum við viljað sjá meira“

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu. mbl.is/Hákon

Fjárlagafrumvarp fjármálaráðherra er að skref í rétta átt eftir mikinn hallarekstur ríkissjóðs undanfarin ár í tengslum við heimsfaraldurinn. Seðlabankastjóri segir þó að hann hefði viljað sjá frumvarpið ganga enn lengra til að láta innspýtinguna ganga hraðar niður. Þetta var meðal þess sem kom fram í máli Ásgeirs Jónssonar Seðlabankastjóra á kynningarfundi peningastefnunefndar vegna vaxtaákvörðunar bankans í morgun.

Ásgeir var spurður að því hvort að hann teldi, í ljósi nýlegs fjárlagafrumvarps, að ríkisfjármálin og peningamálastjórnun Seðlabankans væru að ganga í takt. Hvort að „þessi fjárlög samrýmist því að ná tökum á verðbólgunni og hagkerfinu í jafnvægi,“ eins og Jón Bjarki Bentsson, hjá greiningardeild Íslandsbanka orðaði í spurningu sinni.

„Það liggur fyrir að ríkissjóður tók á sig miklar birgðar á covid-tímanum og að einhverju leyti tók ríkissjóður á sig áfallið af heimilunum að miklu leyti. Það er erfitt að vinda því til baka. Við hefðum auðvitað viljað sjá meira, en fjárlögin eru jákvæð að mörgu leyti. Að einhverju leyti er hemill á útgjöldum og það er tekjubati hjá ríkinu vegna uppgangs,“ svaraði Ásgeir til.

Sagði hann jákvætt að stefnt væri að því að ná ríkisfjármálunum í betra lag en var á faraldsárunum, en ítrekaði aftur að hann hefði viljað sjá farið lengra. „Auðvitað hefðum við viljað sjá meira. Auðvitað hefðum við viljað sjá þessa covid-innspýtingu ganga hraðar niður, en þetta er í rétta átt. Á íslenskan mælikvarða eru ríkisfjármálin að vinna með okkur.“

Ásgeir ítrekaði að Seðlabankinn væri ekki búinn að gefa út formlegt álit sitt á fjárlögunum eins og hann jafnan gerir, en þetta væri álit sitt.

Rannveig Sigurðardóttir aðstoðarseðlabankastjóri tók næst til máls og benti á að þetta væri enn bara frumvarp, ekki fjárlögin sjálf og að frumvarpið ætti eftir að fara í gegnum þingið. Sagði hún að líklega ætti eitthvað eftir að koma inn í frumvarpið til viðbótar við þá meðferð og nefndi hún sérstaklega að áhrif kjarasamninga gæti gætt. „Meira aðhald væri alveg fínt aðhald,“ sagði hún að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert