Dæmdur fyrir að bera sig sex sinnum á æfingasvæði Þróttar

Maðurinn beraði sig við æfingarsvæði Þróttar í Laugardal þar sem …
Maðurinn beraði sig við æfingarsvæði Þróttar í Laugardal þar sem börn voru við æfingar. Ljósmynd/Facebook-síða Þróttar

Karlmaður hefur verið dæmdur í átta mánaða fangelsi fyrir að hafa í sex skipti berað og handleikið kynfæri sín og kastað af sér þvagi í viðurvist bæði barna og fullorðinna á æfingasvæði Þróttar í Laugardal. Hefur maðurinn stundum í fjölmiðlum gengið undir heitinu „flassarinn í Laugardal“.

Mál mannsins var tekið fyrir um síðustu áramót í Héraðsdómi Reykjavíkur. Játaði hann þar brot sín og var í kjölfarið dæmdur í átta mánaða fangelsi. Samkvæmt upplýsingum mbl.is var maðurinn á skilorði en refsing hans var dæmd upp, en dómur málsins hefur enn ekki verið birtur á vef héraðsdómsins.

Í ákæru málsins kemur fram að brot mannsins flokkist sem kynferðisbrot, fíkniefnabrot, brot gegn barnaverndar- og áfengislögum.

Eru þar talin upp sex tilfelli þar sem hann var sagður hafa berað sig, handleikið kynfæri sín og kastað af sér þvagi í viðurvist mismunandi barna sem voru við æfingar á svæðinu. Með þessu er maðurinn sagður hafa sýnt af sér ósiðlegt, vanvirðandi og lostugt athæfi sem var til þess fallið að særa blygðunarsemi þeirra sem voru nærstaddir. Þá er hann jafnframt sagður hafa valdið hneyksli á almannafæri sökum ölvunar í öll skiptin.

Foreldrar þriggja stúlkna fóru hverjir fram á 800 þúsund krónur í miskabætur vegna málsins. Ekki liggur fyrir hvort dómurinn hafi orðið við þeim kröfum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert