Sér ekki ástæðu til að skipta um formann

Birgir Þórarinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir bæði Bjarna Benediktsson og Guðlaug …
Birgir Þórarinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir bæði Bjarna Benediktsson og Guðlaug Þór Þórðarson vera „dugmikla stjórnmálamenn“. mbl.is/Sigurður Bogi

Birgir Þórarinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og áður Miðflokksins, segist ekki sjá ástæðu til þess að breyta um forystu í Sjálfstæðisflokknum. 

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, tilkynnti í gær að hann ætlaði að bjóða sig fram gegn Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, í embætti formanns Sjálfstæðisflokksins á landsfundi flokksins næstu helgi.

„Báðir eru þeir dugmiklir stjórnmálamenn sem ég met mikils. Ég sé hins vegar ekki ástæðu til breytinga svo skömmu eftir kosningar,“ segir Birgir um formannsslaginn í samtali við mbl.is.

Í Morgunblaðinu í dag kom fram að níu þingmenn Sjálfstæðisflokksins styðji Bjarna til þess að halda áfram sem formaður flokksins. Með Birgi eru því orðnir tíu þingmenn sem styðja núverandi ástand. 

Fimm þingmenn flokksins hafa ekki tjáð sig um það opinberlega hvern þeir munu styðja í formannskjörinu. Það eru þau Njáll Trausti Friðbertsson, Ásmundur Friðriksson, Haraldur Benediktsson, Vilhjálmur Árnason og Diljá Mist Einarsdóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert