Hækkun fasteignagjalda beint í kröfugerðir

Ragnar Þór Ingólfsson.
Ragnar Þór Ingólfsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ragn­ar Þór Ing­ólfs­son, formaður VR og 1. vara­for­seti í miðstjórn ASÍ, segir hækkun fasteignagjalda um 20% á milli ára í Reykjavík afar slæmt innlegg inn í þá vinnu sem á sér stað í kjaraviðræðum. Hann segir að þetta muni einungis auka á kröfurnar og segir fáa í samfélaginu praktisera það sem þeir prediki þegar kemur að ábyrgð og stöðugleika hvort sem það sé borgin, ríkið eða atvinnulífið.

Kostnaðarauka þrýst út í kröfugerðir félaganna

Ragnar segist hafa vonast til þess að álagningarprósentunni yrði breytt í Reykjavík líkt og mörg önnur sveitafélög hafa gert. Hann segir einu leiðina vera að þrýsta hækkuninni út í kröfugerðir félaganna.

„Maður hafði vonast til þess að sveitarfélögin myndu gera það sem þau hafa mörg hver gert og það er að breyta álagningarprósentunni í samræmi við þetta til þess að hlífa heimilunum frekar. Þetta bætir ofan á okkar verkefni og vanda, að halda aftur af verðlagshækkunum til þess að létta okkur verkið við kjarasamningaborðið.

Þessar gjaldskrárhækkanir, sem verða í gegnum fasteignagjöldin, fara beint í okkar verðlag sem er verðlag vinnuframlagsins. Eina leiðin fyrir okkur er í raun að mæta þessum kostnaðarauka með því að þrýsta honum út í kröfugerðir félaganna," segir Ragnar.

„Fáir í sam­fé­lag­inu praktísera það sem þeir pre­dika

Stéttarfélögin eru með fyrirvara í kröfugerðum og segir Ragnar að hækkanir fasteignagjalda í Reykjavík muni einungis auka á kröfurnar. Hann segir þetta vera risastóran kostnaðarlið heimilanna og segir fáa í samfélaginu praktísera það sem þeir prediki.

„Við erum núna í miðjum samningaviðræðum sem eru komnar á fullt skrið en við erum að funda stíft þessa dagana og þetta mun ekki gera annað en að auka á kröfurnar. Við erum með fyrirvara í öllum okkar kröfugerðum þar sem við áskiljum okkur þann rétt að bæta við kröfugerðirnar okkar ef við teljum þess þurfa. Þetta er risastór kostnaðarliður heimilanna. Þetta sýnir bara enn og aftur það sem við höfum verið að benda á, að það horfa allir til vinnumarkaðarins þegar kemur að ábyrgð og stöðugleika en það virðast fáir í samfélaginu praktísera það sem þeir predika í þeim efnum, hvort sem það er borgin, ríkið eða atvinnulífið," segir Ragnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert