Lagt til að hreindýrakvóti verði 938 dýr

Hreindýr á beit við Hvalnesskriður.
Hreindýr á beit við Hvalnesskriður. mbl.is/Sigurður Ægisson

Náttúrustofa Austurlands leggur til að ekki verði fleiri en 938 hreindýr veidd á næsta ári hérlendis, þ.e. 501 kýr og 437 tarfar. 

Austurglugginn vekur athygli á þessu í dag en stofnunin býður upp á opið samráð í sambandi við tillögur um hreindýrakvótann 2023. 

Einungis er tekið við skriflegum athugasemdum við kvótatillögu Náttúrustofu Austurlands og skulu þær berast stofunni fyrir miðnætti 25. nóvember 2022. 

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið auglýsir hreindýrakvóta snemma árs og Umhverfisstofnun annast sölu veiðileyfanna. Á þessu ári var heimilt að veiða að hámarki 1.021 hreindýr, 546 kýr og 475 tarfa. 

Tillaga Náttúrustofu Austurlands bendir til þess að samdráttur verði því í hreindýraveiðinni. 

mbl.is