Allt sem þau óttuðust hefur nú gerst

Myndin er birt með leyfi Hussein Hussein.
Myndin er birt með leyfi Hussein Hussein. Samsett mynd

„Allt sem þau óttuðust og íslensk stjórnvöld lofuðu að myndi ekki gerast, hefur nú gerst í máli þeirra. Þau eru heimilislaus, án framfærslu, án aðgengi að heilbrigðisþjónustu og lengi mætti telja,“ segir Claudia Ashanie Wil­son, lögmaður Hus­seins Husseins, í samtali við mbl.is.

Mál Hus­seins vakti tals­verða at­hygli í byrj­un mánaðar­ins þegar lög­regl­an flutti hann og fjór­tán aðra flótta­menn aft­ur til Grikk­lands þar sem fólkið hafði áður fengið alþjóðlega vernd. Hus­sein er í hjóla­stól og gagn­rýndu meðal ann­ars sam­tök­in Þroska­hjálp aðgerðirnar.

„Þau [Hussein fjölskyldan] telja að íslenska ríkið hafi brotið gegn málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga þegar ákvörðunin var tekin um að hafna umsókn þeirra um efnislega meðferð hér á Íslandi og að vísa þeim aftur til Grikklands,“ segir Claudia.

Aðalmeðferð í máli Husseins gegn íslenska ríkinu hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Hussein gaf skýrslu frá Aþenu í gegnum fjarfundabúnað. Í máli hans kom fram að hann hefði ekki aðgang að heilbrigðisþjónustu í Grikklandi þrátt fyrir verki í baki og hjarta. 

Nýtur ekki grundvallar mannréttinda

Í málsflutningi sínum sagði Claudia að mat stjórnvalda á aðstæðum Husseins í Grikklandi hafi verið óviðunandi og að ákvörðun stjórnvalda hafi verið tekin á grundvelli ófullnægjandi upplýsinga. 

Hún segir að með réttu hefðu íslensk stjórnvöld átt að komast að þeirri niðurstöðu að sú staða sem myndi bíða stefnanda ytra yrði síðri en hér á landi. Enda sé Hussein heimilislaus og fái eingöngu þak yfir höfuðið til 4. desember fyrir góðmennsku kennara Fjölbrautaskólans við Ármúla.

Hún segir heilsu Husseins hafa hrakað frá því hann var sendur til Grikklands.

„Það væri með öllu ósanngjarnt að láta stefnanda bera málskostnað sinn sjálfur enda er stefnandi ekki aðeins heimilislaus flóttamaður heldur er hann flóttamaður sem nýtur ekki grundvallar mannréttinda vegna meðferðar íslenskra stjórnvalda,“ sagði Claudia.

Ekkert lífshættulegt hrjái Hussein

Erna Hjaltested er lögmaður í málinu fyrir íslenska ríkið og Útlendingastofnun. 

Kröfur ríkisins eru óbreyttar. Krafist er sýknu af öllum kröfum. 

„Það sem er aðallega deilt um í málinu er hvort mál stefnanda hafi verið nægilega rannsakað og að jafnræðisregla stjórnsýsluréttarins hafi verið virt,“ sagði Erna í málflutningi sínum í dag.

„Í öðru lagi hvort víkja eigi frá þeim meginreglum útlendingalaga að taka ekki umsókn um alþjóðarvernd til efnislegrar meðferðar hérlendis þegar umsækjandi er þegar með alþjóðlega vernd erlendis.“

Erna nefndi að ekkert skyndilegt og lífshættulegt hrjái Hussein.

Claudia mótmælti því og taldi það ómögulegt fyrir íslensk stjórnvöld að komast að þeirri niðurstöðu þegar heilbrigðisgögn hafi ekki öll legið fyrir í málinu þegar ákvörðunin var tekin.

mbl.is