Skerðing getur þýtt að fólk komist ekki til vinnu

Nýlega auglýsti Vegagerðin útboð í rekstur Hríseyjarferjunnar.
Nýlega auglýsti Vegagerðin útboð í rekstur Hríseyjarferjunnar. mbl.is/Sigurður Bogi

Íbúar í Hrísey eru áhyggjufullir yfir útboði Vegagerðarinnar í rekstur Hríseyjarferjunnar þar sem kveðið er á um mögulega skerðingu á þjónustustigi. 

Vegagerðin áskilur sér rétt í útboðinu til að fjölga/fækka ferðum um +/- 20% á samningstíma sem er tímabilið 2023 til 2025. Þá kemur einnig fram að stjórnvöldum sé heimilt að ,,fækka eða fjölga ferðum eða segja upp einstaka leið með 6 mánaða fyrirvara.“

Á vef Hríseyinga, þar sem greint er frá þessu, segir að ferjuáætlun sé ekki skilgreind í útboðsgögnum. Þá komi heldur ekki fram í útboðsgögnum að ferjan sé sjúkrabíll Hríseyinga og því þurfi áhöfnin að vera á bakvakt vegna sjúkraflutninga allan sólarhringinn.

Grundvallarforsenda byggðar og framþróunar

,,Ferjusiglingar til og frá Hrísey er grundvallarforsenda byggðar og framþróunar í Hrísey. Þar sem ferjan er þjóðvegur á sjó og í raun eina virka aðkomuleiðin til eyjarinnar er mikil áhersla lögð mjög hátt þjónustustig ferjunnar,“ segir í bréfi til þingmanna í Norðausturkjördæmi.

Fram kemur á vefnum að almenn sátt ríki um núverandi ferjuáætlun en fækkun ferða geti haft veruleg áhrif á skilyrði til búsetu í Hrísey. 

Niðurfelling á ákveðnum ferðum getur haft þau áhrif að ómögulegt yrði fyrir íbúa að sækja atvinnu í landi ásamt takmörkun á möguleikum íbúa að stunda félagsstarf, íþróttastarf, sækja menningar- viðburði svo eitthvað sé nefnt. Teljum við fráleitt að það sé á valdi rekstraraðila að ákveða ferjuáætlun, hún ætti að vera föst í útboðsgögnum og breytingar á henni gerðar í samráði við íbúa og notendur þjónustunnar.

Markvisst hefur verið unnið að uppbyggingu í Hrísey undanfarin ár eftir ýmis áföll sem samfélagið hefur orðið fyrir. Á árunum 2015-2019 var Hrísey í verkefni Byggðastofnunar Brothættar byggðir þar sem fyrsta megin starfsmarkmið var ,,Aðlaðandi og aðgengilegt eyjarsamfélag“. Í Framtíðarsýn 2018 kemur fram að ,,siglingar skapa sérstöðu eyjarsamfélagsins en tekist hefur að miða þær að þörfum notenda þannig að eyjan er hluti af sameiginlegu atvinnusvæði Eyjafjarðar.“ Skerðingu á þjónustu ferjunnar myndi kasta þessari framtíðarsýn á glæ.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert