„Ágætt að horfa til þess hver lætur vinna álitið“

Bjarni Benediktsson í ráðherrabústaðnum í dag.
Bjarni Benediktsson í ráðherrabústaðnum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég hef séð þetta áður, svona misvísandi lögfræðiálit. Það er að jafnaði ágætt að horfa til þess hver lætur vinna álitið. Hérna eru þeir sem hafa hagsmuni að óska eftir því að fá þetta lögfræðiálit. Það var viðbúið að þessi sjónarmið kæmu fram,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála og efnahagsráðherra, í samtali við mbl.is um lögfræðiálit lögfræðistofunnar LOGOS.

 „Hérna er verið að skrifa lögfræðiálit um tillögu sem aldrei hefur verið lögð fram. Það er verið að skrifa lögfræðiálit um frumvarp sem ekki liggur fyrir þinginu,“ segir Bjarni.

Í tilkynningu á miðvikudaginn frá lífeyrissjóðunum sem eiga skuldabréf á ÍL-sjóðinn kemur fram að LOGOS hafi unnið lög­fræðiálit fyr­ir sjóðina. Þeir telja laga­lega stöðu sína, vegna fyr­ir­hugaðrar laga­setn­ing­ar fjár­málaráðherra um gjaldþrot ÍL-sjóðs, afar sterka og að fyrirhuguð lagasetning brjóti í bága við stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem segir að ÍL-sjóður hafi hvorki verið lagður niður né með nein­um hætti sam­einaður al­menn­um rekstri rík­is­sjóðs. Til þess hefði þurft sér­staka lög­gjöf sem sé ekki til staðar.

Þreyfingar um samtal á byrjunarstigi

„Ég hef sagt um þetta mál að það væri lang best ef að þeir sem eiga kröfur á ÍL-sjóð gætu átt samtal við sjóðinn og ríkisvald um yfirtöku á eignum sjóðsins. Þreyfingar um slíkt samtal eru á byrjunarstigi og ég bind enn vonir um að það geti skilað einghverjum árangri.

Ef það gerist hins vegar ekki munum við ígrunda vel þá valkosti sem við höfum, meðal annars þann sem ég hef sagt að láta slíta sjóðnum og þá skulum við ræða saman lagalega stöðu málsins þegar að því kemur. Við höfum birt okkar lögfræðiálit og það stendur alveg óhakað,“ segir Bjarni.

„Það sem hefur kannski helst komið mér á óvart í þessu máli er það hvernig sumir þingmenn hafa talað um þetta mál sem virðast ætla að kappkosta það að málefni ÍL-sjóðs valdi ríkissjóði sem mestu tjóni. Ég hef einfaldlega þá lagaskyldu sem ráðherra að lágmarka tjón ríkissjóðs vegna þess vanda sem hefur safnast upp yfir árin og er núna inni í ÍL-sjóði og ég mun halda áfram að gera það.“

mbl.is