Sóttist eftir nektarmyndum af 12-14 ára stúlkum

Maðurinn komst í samband við flestar stúlkurnar í gegnum Snapchat …
Maðurinn komst í samband við flestar stúlkurnar í gegnum Snapchat samskiptaforritið. AFP

Nítján ára maður var fyrr í þessum mánuði dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir að sækjast eftir að fá sendar kynferðislegar myndir af fjölda stúlkna á aldrinum 12 til 14 ára gegn greiðslu. Var hann sakfelldur fyrir sex slík tilfelli þar sem stúlkurnar sendu honum myndir af sér. Einnig var hann sakfelldur fyrir nokkur skipti þar sem hann óskaði eftir myndum og greiddi stúlkum pening án þess að þær hafi sent honum myndir af sér.

Fellt niður þegar stúlkurnar voru 15-17 ára

Vegna lagabreytinga í sumar var fallið frá ákæru á hendur manninum í tengslum við brot gegn sex öðrum stúlkum og tilraunar til að fá myndir frá þremur öðrum. Var þá gert refsilaust að fá kynferðislegar myndir frá 15-17 ára börnum væri það með þeirra samþykki. Brot mannsins sem dómurinn sneri að snúast því öll að börnum undir 15 ára aldri.

„Flass“ og „flex“ myndir og „sugar daddy“

Í dóminum kemur fram að maðurinn hafi nýlega verið orðinn 18 ára þegar brot hans áttu sér stað, en í skýrslutökum yfir stúlkunum í Barnahúsi kom fram að hann hefði komist í samband við þær í flestum tilfellum á samfélagsmiðlinum Snapchat og þar óskað eftir að fá „flass“ eða „flex“ myndir, eða brjósta- eða rassamyndir af stúlkunum.

Sögðu nokkrar stúlkur jafnframt frá því að hann hefði spurt þær hvort þær vildu ekki eiga „sugar daddy“, þ.e. eldri einstakling sem greiddi þeim pening.

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Málið komst upp þegar forráðamenn einnar stúlkunnar létu vita af ætluðu kynferðisbroti gegn nokkrum stúlkum og að verið væri að dreifa myndum gegnum samfélagsmiðla gegn greiðslu. Fljótlega féll grunur á manninn og var gerð húsleit hjá honum og hann tekinn í yfirheyrslu. Við húsleitina fundust einnig myndir af óþekktum stúlkum sem virtust hafa sent honum myndir.

Borgaði samtals 1,2 milljónir á tveimur vikum

Við skoðun á bankareikningum mannsins kom í ljós að hann hafði í 124 skipti millifært samtals 1.192.000 á ýmsa aðila, aðallega ungar stúlkur, á rúmlega tveggja vikna tímabili í febrúar árið 2021. Fékk lögregla þessa aðila  í yfirheyrslu og kom þar fram að hann hefði óskað eftir ljósmyndum af stúlkunum gegn greiðslu.

Maðurinn neitaði sök fyrir dómi og sagði stúlkurnar hafa beðið hann um pening fyrir mat og að hann hefði orðið við því. Sagðist hann hafa eignast peninga frá föður sínum sem hann væri í slæmu sambandi við og vildi ekki eiga peningana og því ákveðið að gefa þá þeim sem vildu. Kannaðist hann ekki við beiðnir um ljósmyndir né að hafa spurt stúlkurnar hvort þær vildu eignast „sugar daddy“.

Framburður stúlknanna afar trúverðugur

Í dóminum kemur fram að framburður stúlknanna hafi verið afar trúverðugur og allar samhljóða í aðalatriðum á meðan skýrsla mannsins hafi verið ótrúverðug og hann ekki getað gefið góðar skýringar á millifærslunum. Var því byggt á framburði þeirra, en í framburði sjö stúlkna kom meðal annars fram að hann hefði sérstaklega spurt um aldur þeirra.

Í dóminum er farið yfir framburð stúlknanna og hvernig þær upplifðu samskiptin við manninn. Þannig hafi hann jafnan komið sér í samskipti við þær af fyrra bragði og svo farið að óska eftir myndum og boðið upp á greiðslu fyrir. Voru greiðslurnar allt frá 4.000 krónum upp í tæplega 200 þúsund samtals í nokkrum greiðslum. Sendu sumar stúlkurnar tugi mynda meðan aðrar sendu mjög fáar. Fram kom í framburði tveggja stúlkna að þær hefðu af fyrra bragði sent manninum myndir því þær vissu að hann væri að borga fyrir myndir. Sýndu sumar myndirnar stúlkurnar berbrjósta en aðrar á nærbuxum.

Sagðist oft biðja um að fá peninga á „story“

Þá er í dóminum einnig sagt frá því að sumar stúlkur hafi neitað að senda manninum myndir þótt hann hafi sent þeim peninga og tvær aðrar sendu myndir sem þær fundu á netinu sem voru ekki af þeim. Ein stúlka sagðist jafnframt oft biðja sjálf um að fá senda peninga á „story“ á Snapchat og að  mjög margir hafi sent henni peninga. „Færi hún þá stundum og tæki myndir af netinu sem hún vissi að gömlum mönnum líkaði við,“ segir í dóminum og er tekið fram að þótt hún væri oft beðin um að senda myndir af sér hafi hún bara sent myndir sem hún fann á netinu. Þá sendu sumir mannanna henni myndir af sér og oft af typpinu á sér og þætti henni þær ógeðslegar.

Dómurinn taldi það ljóst að maðurinn hafi brotið af sér með háttsemi sinni. „Liggur því fyrir að ákærði reyndi að fá sendar og fékk senda ljósmyndir af barnungum stúlkum vitandi um aldur þeirra og með því að ljúga til um eigin aldur í sumum tilfellum.“ Var hann sakfelldur fyrir flesta ákæruliðina nema þar sem stúlkurnar höfðu sjálfar átt frumkvæði að því að senda myndir af sér.

Var flutt tvisvar fyrir dómi

Upphaflega var málið þingfest í janúar á þessu ári og fór aðalmeðferð fram í júní. Dómur var hins vegar ekki kveðinn upp og var nýr dómari skipaður í september og fór aðalmeðferð á ný fram í október.

Vísað er til ungs aldurs mannsins í dóminum, en einnig að umfangsmikil brot væri að ræða. Þótti fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi hæfilegur dómur, en auk þess þarf hann að greiða 3,2 milljónir í sakarkostnað, en ríkið þarf jafnframt að bera sama kostnað þar sem hluti málsins var felldur niður. Þá var hann dæmdur til að greiða fimm stúlkum 200 þúsund krónur í miskabætur hverri.

Fyrr á þessu ári var karlmaður á sextugsaldri dæmdur í sex ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn fimm börnum en hann nýtti sér einnig Snapchat til að komast í samband við stúlkurnar, fá þær til að senda myndir og myndbönd af þeim í kynferðislegum athöfnum. Hann var einnig dæmdur fyrir kynferðislega áreitni og nauðgun gagnvart sumum stúlkunum. Maðurinn er jafnframt grunaður um fleiri kynferðisbrot gagnvart börnum, en þau eru til rannsóknar.

mbl.is