Umferðin eins og „villta vestrið“

Kristján segir nokkuð öruggt að rekja megi aukninguna á umferðaróhöppum …
Kristján segir nokkuð öruggt að rekja megi aukninguna á umferðaróhöppum til kauphlaupsins í tengslum við Svartan föstudag og hvetur hann fólk til að ganga hægt um gleðinnar dyr. Myndin er úr safni. mbl.is/Hari

Það eru fleiri en verslunarmenn sem finna fyrir auknu álagi á þessum svarta föstudegi en starfsmenn árekstur.is hafa sinnt ríflega tvöfalt fleiri árekstrum í dag samanborið við síðustu fjóra föstudaga.

Kristján Ö. Kristjánsson, framkvæmdastjóri árekstur.is, segir nokkuð öruggt að rekja megi aukninguna á umferðaróhöppum til kauphlaupsins í tengslum við Svartan föstudag og hvetur hann fólk til að ganga hægt um gleðinnar dyr.

Hann segir ljóst að meiri álag hafi verið á fyrirtækinu á þessum degi síðustu þrjú ár en þó ekkert í líkindum við það sem gengið hefur á í dag.

30 útköll 

Um hálfþrjú leytið hafði árekstur.is sinnt um 30 útköllum og var þá búið að draga þó nokkra bíla af vettvangi sem nú eru ónýtir.

„Þetta er eins og versti vetrardagur með snjó og hálku. Við tókum eftir þessu um leið og búðir opnuðu í dag,“ segir Kristján umferðin sé almennt þyngri í grennd við stórar verslanir sem hafa auglýst afslætti.

„Þetta er orðið eins og í Ameríku – villta vestrið.“

Fyrirtækið verður með aukinn viðbúnað síðari part dags en að sögn Kristjáns má búast við annarri holskeflu á þeim tíma sem fólk klárar vinnu.

mbl.is