Endurflytja þurfti tvö mál

Héraðsdómur Vestfjarða er á Ísafirði.
Héraðsdómur Vestfjarða er á Ísafirði. mbl.is/Sigurður Bogi

Endurflytja þurfti tvö mál fyrir Héraðsdómi Vestfjarða í haust eftir að dómur var ekki kveðinn upp eftir aðalmeðferð málanna í sumar. Dómarnir voru báðir birtir í síðustu viku, en annar þeirra féll 4. nóvember og hinn 11. nóvember.

Samkvæmt upplýsingum frá Héraðsdómi Vestfjarða helgast endurflutningurinn af því að dómstjóri og eini dómari dómstólsins fór í veikindaleyfi eftir að aðalmeðferð málanna fór fram. Ekki var um fleiri en þessi tvö mál að ræða sem þurfti að endurflytja.

Í kjölfarið var Björn Þorvaldsson settur í embætti dómstjóra og fór aðalmeðferð málanna aftur fram í október og voru dómarnir, sem fyrr segir, kveðnir upp nú í nóvember.

mbl.is