Fjögur ár fyrir nauðgun, hótanir og árásir

Hérðasdómur Reykjavíkur.
Hérðasdómur Reykjavíkur. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Karlmaður hefur verið dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir að nauðga fyrrverandi eiginkonu sinni og barnsmóður. Hann var jafnframt fundinn sekur um að hóta henni, meðal annars lífláti og í annað skipti að veitast að henni. Þá var hann jafnframt fundinn sekur um að hafa ráðist gegn tveimur mönnum og barið þá, meðal annars með slökkvitæki.

Dómurinn féll fyrir viku síðan í Héraðsdómi Reykjavíkur en var birtur í dag.

Brjálaður og til alls vís

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa setið fyrir konunni og veist að henni og m.a. tekið af henni síma, en maðurinn taldi að konan hefði haldið fram hjá sér og vildi sjá myndir í síma hennar. Kemur fram í dóminum að stuttu áður hafi konan óskað eftir skilnaði.

Því næst fóru þau í bíl niður í bæ þar sem hann læsti konuna inn í bílnum, en hún kveikti á „hazard-ljósi“ og þrýsti á flautuna þannig að aðrir viðstaddir veittu þeim athygli. Sögðu vitni sem komu fyrir dóminn að maðurinn hefði þarna verið brjálaður og haldið í konuna en hún öskrað á hann að fara. Lýsti einn því þannig að maðurinn hefði verið til alls vís. Áverkar sáust á konunni eftir þetta atvik.

Nauðgaði og hótaði konunni í bifreið

Um tíu dögum síðar tilkynnti konan um nauðgun, en þá hafði hún samþykkt að skutla manninum. Maðurinn sagði að konan hefði nálgast sig og viljað hafa við sig kynmök og klætt sig úr í bílnum. Hann hafi síðar farið og keypt fíkniefni og neytt þeirra, en þegar hann kom til baka hafa konan verið í uppnámi að hringja í Neyðarlínuna að tilkynna nauðgun. Hafi hann tekið símann af henni og sagt starfsmanni Neyðarlínuna að hún væri drukkin og skellt á.

Framburður konunnar var nokkuð annar, en hún sagðist hafa látið eftir manninum að skutla honum, en svo þegar komið var á leiðarenda hafi hann gripið í handbremsuna og tekið lyklana. Hann hafi svo farið að spyrja hana út í atriði sem hún vildi ekki ræða, hótað henni og viljað að hún klæddi sig úr. Þá hafi hann einnig verið hótandi með hníf, eða hálfgerðan ostahníf og sagst ætla að skera úr henni augun og drepa hana.

Tvær konur á göngu komu að og aðstoðuðu

Sagðist konan hafa verið dofin og bara viljað að þessu lyki. Þá sagði hún manninn hafa sagt að hann hefði troðið kókaíni upp í leggögn hennar og reynt að troða þeim upp í hana til að hún myndi mælast ef lögregla kæmi á staðinn. Þess má geta að við prófun reyndist konan ekki undir áhrifum.

Fyrir hendi er símtal konunnar í Neyðarlínuna klukkan 11:37 þennan morgun, en um fjórum tímum síðar kom tilkynning frá konunni um nauðgunina.

Tvær konur sem voru á göngu á svæðinu komu auga á manninn og konuna og töldu hegðun hans skrítna en hann var öskrandi yfir konunni. Þegar nær kom sagði konan að maðurinn væri vopnaður og hefði nauðgað sér. Fór hann í kjölfarið og reyndi að fela sig í skógargróðri. Meðal annars bar maður vitni sem hafði tjaldað á svæðinu, en maðurinn fór inn í tjaldið og óskaði eftir því að fá sígarettu sem maðurinn varð ekki við. Fór maðurinn þá áður en lögreglan kom um 5-10 mínútum síðar.

Framburður mannsins „yfirgengilegur“

Í dóminum segir að trúverðugt sé að maðurinn hafi ráðist gegn konunni í fyrra tilfellinu og þá sé vitnisburður um að hann hafi  verið heltekinn af meintu framhjáhaldi hennar. Er hann sakfelldur fyrir þann hluta málsins.

Varðandi nauðgunina segir að framburður mannsins hafi verið ótrúverðugur, óstöðugur „og á köflum yfirgengilegur“ bæði um aðdraganda og atvikið. Þá segir í dóminum að horfa þurfi til háttsemi hans í kjölfarið. Er talið fjarstæðukennt að konan hafi átt frumkvæði að samförum við þessar „ógnaraðstæður“ og maðurinn því sakfelldur.

Réðst gegn nokkrum mönnum

Viku áður en maðurinn réðst að konunni kom upp atvik sem einnig er ákært fyrir. Þar var hann sakaður um að hafa ráðist gegn þremur mönnum. Sagði maðurinn að reyndar hefðu mennirnir ráðist á sig. Sú saga þótti þó ekki trúverðug að mati dómsins og er hann sakfelldur á atburðalýsingu sem byggir að mestu á frásögn mannanna. M.a. vitnuðu tveir þeirra um að maðurinn hefði bankað upp á hjá þeim, en þar bjuggu þeir fjórir saman. Maðurinn hafi óskað eftir að fá veip, en verið neitað um það. Sagðist einn þá hafa séð hann rífa þann sem kom til dyra og tekið hann fram á gang þar sem barsmíðar hófust, bæði með hnefa og síðar með slökkvitæki.

Var hann jafnframt fundinn sekur um að hafa lamið annan mannanna sem reyndi að róa slagsmálin. Maðurinn var hins vegar sýknaður af því að hafa ráðist á þriðja aðilann. Meðal annars vitnuðu sérfræðingar um að áverkar á mönnunum tveimur væru í takt við lýsingar þeirra og þá væru engar vísbendingar um að fjórmenningarnir hefðu af fyrra bragði ráðist á hann, hvað þá í þvottahúsi í húsinu, þar sem maðurinn sagði að átökin hefðu byrjað. Var hann því líka sakfelldur fyrir þennan hlut.

Að lokum var maðurinn sakfelldur fyrir eignarspjöll, með því að hafa skemmt bifreið sem var í eigu hjóna sem hann þekkti til, og fyrir að hafa ekið undir áhrifum.

Sem fyrr segir þótti fjögurra ára dómur hæfileg refsing, en auk þess var honum gert að greiða konunni 2,5 milljónir í bætur og allan sakarkostnað málsins, samtals rúmlega 3 milljónir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert