Vefur Rúv skiptir um útlit

Nýja útlit ruv.is.
Nýja útlit ruv.is. Skjáskot

Vefsíða Ríkisútvarpsins hefur öðlast nýtt útlit en Birgir Þór Harðason, vefstjóri á Rúv, segir að vonandi mun nýja útlitið sjást á tölvuskjáum allra landsmanna í dag, síðasta lagi á morgun. 

Hann segir í samtali við mbl.is að tíu til tólf ár eru síðan að útlit vefsíðunnar var uppfært. Það sé því komin tími á uppfærslu. 

„Þetta er að hluta til gert til notkunar innanhúss – við erum að breyta bæði um bakenda og framenda í einu lagi,“ segir Birgir og á þá við annars vegar notendaviðmót sem starfsmenn Rúv notast við og hins vegar það sem almenningur sér.

Hann segir að verið sé að hugsa vefinn upp á nýtt. 

Gamla útlit ruv.is.
Gamla útlit ruv.is. Skjáskot

„Gamla módelið var svolítið barns síns tíma – úr sér gengið – og nú erum við að hugsa forsíðuna aðeins upp á nýtt þannig að við séum bara með helstu fréttir á forsíðunni,“ segir Birgir og bætir við að hugbúnaðarteymið sé að prufa alls konar nýja hluti á næstu dögum. 

Hægt og rólega

Hann nefnir að nýja útlitið komi ekki upp á öllum tölvum eins og er heldur sé verið að prufa útlitið hægt og rólega, eða eins og það kallast á ensku „soft launch“.

„Við erum að fleyta þessu. Sjá hvort að skipið fljóti ekki örugglega,“ segir Birgir og bætir við að allir notendur ættu að sjá nýja útlitið í dag eða á morgun. 

„Hugbúnaðarteymið hjá okkur er að herða skrúfurnar og sjá hvort þetta sé ekki allt í lagi.“

Hann nefnir að nýja útlitið hafi verið sett í loftið innanhúss um miðjan nóvember og nú sé verið að koma því út til almennings í rólegheitum. 

„Nýi vefurinn á að skila bættri þjónustu til notenda og neytenda Rúv, sem er samkvæmt þjónustusamningi við ríkið, allur almenningur. Þannig að það er markmiðið að bæta þjónustuna þannig við séum að ritstýra betur forsíðunni og öllu efninu okkar til þess að þjónustan sé sem best. Einnig að skerpa á áherslunum sem Rúv setur,“ segir Birgir að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert