Gríðarlega mikið álag á bráðamóttökunni

Mikið álag er á bráðamóttöku Landspítalans í dag og biðtími …
Mikið álag er á bráðamóttöku Landspítalans í dag og biðtími því langur eftir þjónustu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það hefur engum verið vísað frá, en það er hins vegar gríðarleg mikið álag á bráðamóttökuna í dag, eins og marga aðra daga,“ segir Andri Ólafsson samskiptastjóri Landspítalans í samtali við mbl.is. 

„Það hafa komið upp tilfelli þar sem sjúkraflutningamenn hafa þurft að bíða með sjúklingum frammi á biðstofu og það er bara vegna þess að það er forgangsraðað inn á bráðamóttökuna, sérstaklega þegar mikið er að gera, eftir bráðleika.“

Vísað á rétt úrræði

Andri segir að engum sé samt vísað frá. „Fólki getur hins vegar verið vísað á rétt úrræði. Ef þú kemur til dæmis með barn er því mögulega vísað á bráðamóttöku barna, ef einhver kemur með vanlíðan er viðkomandi kannski vísað inn á geðsvið. En þá er bara verið að vísa fólki á rétta staði.“

Andri segir að vissulega sé talsverð bið á bráðamóttökunni í dag og þá geti komið upp sú staða að sjúkrabíll komi með einstakling sem ekki komist síðan beint inn á bráðamóttökuna því aðrir eru á undan í forgangi.

„Það er bara oft erfitt þegar aðflæði er mikið og fráflæði lítið á bráðamóttökunni og við lendum oft í þessum álagstoppum eins og er í dag,“ segir Andri að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert