„Óásættanlegt“ álag til lengri tíma

Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala, segir mönnun hjúkrunarfræðinga á bráðamóttöku vera …
Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala, segir mönnun hjúkrunarfræðinga á bráðamóttöku vera langt undir því sem gert er ráð fyrir. mbl.is/Arnþór

Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítalans, segir stöðuna á bráðamóttökunni vera mjög erfiða vegna manneklu. Alls létu 14 hjúkr­un­ar­fræðing­ar af störf­um á bráðamót­tökunni í byrjun september.

„Við höfum verið að missa fólk sem býr yfir mikilli færni og það er mjög bagalegt. Við erum að leita leiða til að fá fólk til starfa og helst myndum við vilja fá það fólk til baka sem hefur hætt því þetta eru hjúkrunarfræðingar sem búa yfir mikilli færni og reynslu,“ segir Runólfur í samtali við mbl.is.

„Á undanförnum mánuðum hafa á bilinu 30 og 40 innlagðir sjúklingar dvalið á bráðamóttökunni á hverjum tíma til viðbótar við þá sem streyma inn og þarfnast þjónustu. Þetta skapar gríðarlegt álag á starfsfólkið sem jafnframt er uggandi um öryggi þessa fólks.“

Runólfur segir að Landspítalinn hafi reynt að bregðast við því með því að reyna að draga úr álagi á bráðamóttöku. Hann segir mönnun hjúkrunarfræðinga vera langt undir því sem gert er ráð fyrir.

„Ástæðan fyrir því að fólk er að hverfa frá starfi þarna er að álag hefur verið óásættanlegt til langs tíma. Það stafar af því að sjúklingar sem eru það veikir að ákveðið hefur verið að leggja þá inn á spítalann komast ekki inn á legudeildir fyrr en eftir langan tíma og dvelja stundum sólahringum saman á bráðamóttökunni.“

Skortir viðeigandi úrræði fyrir aldraða

„Rótin að þessum vanda er aldraðir einstaklingar sem búa við það mikla færnisskerðingu að þeir komast ekki heim að lokinni meðferð á Landspítala. Þeir hafa safnast fyrir á legudeildum spítalans því það skortir viðeigandi úrræði fyrir þetta fólk. Þá er ég að tala um hjúkrunarrými þegar það á við og endurhæfingarrými utan spítalans,“ segir Runólfur.

„Það eru núna um 100 einstaklingar á vegum spítalans sem bíða eftir hjúkrunarrými. Liðlega 30 aldraðir einstaklingar bíða eftir endurhæfingarrými. Ef við gætum flutt þessa einstaklinga frá spítalanum þá værum við ekki vera í þessum miklu vandræðum með legurými og þá myndi staðan á bráðamóttökunni stórbatna.“

„Við vonumst til að með opnun hjúkrunarrýma í Árborg á næstunni muni nokkur fjöldi einstaklinga geta farið frá Landspítala og þar af leiðandi bætt okkar stöðu. Enn fremur er verið að opna endurhæfingarrými fyrir aldraða á Reykjavíkursvæðinu um þessar mundir. Þessi úrræði koma sannarlega að gagni en meira þarf til því þörfin er stöðugt að aukast.“

Leita leiða til að minnka álagið á bráðamóttöku

Runólfur segir að reynt hafi verið að draga úr álagi á bráðamóttöku með því að efla bráðadagdeild lyflækninga síðastliðið vor. Þar sé hægt að veita sjúklingum þjónustu sem þurfa ekki meðferð á bráðamóttökunni.

Þar að auki hafa sjúklingar verið færðir í auknum mæli frá bráðamóttökunni inn á legudeildir umfram þann fjölda sem gert er ráð fyrir þar.

„Þetta hefur ekki dugað en við höfum náð að fækka meðaltalsfjölda sjúklinga sem að bíða innlagnar bráðamóttökunni á hverjum tíma. Við leitumst við að halda þeim undir 20 og stefnum að því að komast neðar,“ segir Runólfur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert