Bæjarins besta tvöfalda líf

Konrad Kuczek afgreiðir pylsur á Bæjarins bestu og er hvers …
Konrad Kuczek afgreiðir pylsur á Bæjarins bestu og er hvers manns hugljúfi. Hætt er hins vegar við að mörgum rynni kalt vatn milli skinns og hörunds sæju þeir til Kuczek í frítímanum þegar hann klífur hæstu byggingar Evrópu án nokkurs öryggisbúnaðar í bol frá Bæjarins bestu. Hér við Agbar-turninn í Barcelona rétt fyrir flugtak. Ljósmynd/Aðsend

Hinn pólski Konrad Kuczek þykir dagfarsprúður, alþýðlegur og hinn vingjarnlegasti þar sem hann afgreiðir SS-pylsur fimum höndum hjá Bæjarins bestu við Tryggvagötu sem einhver reiknaði einhverju sinni út að væri landsins besta gróðamylla miðað við fermetrafjölda.

Kuczek hins vegar, fæddur í þorpinu Radłów, tæpa 100 kílómetra frá Kraków, árið 1996, lifir tvöföldu lífi. Þegar Pólverjinn, sem búið hefur á Íslandi í fjögur ár, á lausa stund ferðast hann um heiminn og klífur þar turna og skýjakljúfa ásamt unnustu sinni Danielu án minnsta öryggisbúnaðar.

Má bjóða þér eina með öllu? Kuczek á þaki Agbar-turnsins …
Má bjóða þér eina með öllu? Kuczek á þaki Agbar-turnsins í Barcelona. „Lögreglan bíður alltaf eftir mér á þakinu,“ segir Pólverjinn. Ljósmynd/Aðsend

„Ég kom til Íslands vegna þess að mig dreymdi um að koma hingað,“ segir Kuczek í samtali við mbl.is þegar blaðamaður spyr hverju Íslendingar megi þakka þann heiður að fá þennan unga mann í heimsókn. „Pabbi rekur sorphirðuþjónustu og mamma vinnur í búð, ég á líka einn yngri bróður,“ segir pylsusalinn frá og rifjar upp ágæt æskuár sín.

„Ég átti góða barnæsku og ólst upp við öryggi, staðan var aldrei sú að ég þyrfti að flytja til útlanda til að afla mér tekna, mig langaði bara til Íslands,“ segir Kuczek sem hefur ástríðu fyrir ferðalögum, hefur ferðast til 28 landa í fjórum heimsálfum, að hluta til vegna klifuráhugans.

„Veðrið er reyndar skelfilegt stundum“

Hann lauk háskólanámi í rekstrarfræði og frönsku í Póllandi og hefur unnið ýmis störf hér á landi. „Ég vann á þremur bílaleigum áður en ég fór að afgreiða pylsur á Bæjarins bestu. Ég kann vel við mig á Íslandi, ja, veðrið er reyndar skelfilegt hérna stundum,“ játar Pólverjinn en ber landi og þjóð vel söguna.

Unnustan Daniela skirrist ekki við að stunda áhugamálið með sínum …
Unnustan Daniela skirrist ekki við að stunda áhugamálið með sínum heittelskaða. Hér klífa þau Skyper-turninn í Frankfurt þar sem þau ákváðu að eiga stefnumót í 155 metra hæð. „Við lentum í svaka veseni með lögguna á eftir,“ segir Kuczek. Ljósmynd/Aðsend

Hann er ekki viss um hve löng Íslandsdvölin verður í heildina, það fer eftir því hvernig byggingaklifur um allan heim þróast hjá þeim Danielu. Þar með getur blaðamaður ekki orða bundist lengur. Hvernig stendur á þessu mjög svo forvitnilega áhugamáli sem alls staðar hlýtur þó að vera stundað í trássi við lög og reglur?

„Ég hef alla tíð verið í íþróttum. Þegar ég var yngri spilaði ég fótbolta og körfubolta en það var bara aldrei nóg. Mig langaði að sýna heiminum og sanna fyrir sjálfum mér að ég er gerður fyrir stærri hluti,“ svarar Kuczek.

„Ég var alltaf að byrja í einhverjum nýjum íþróttum en gafst alltaf upp á þeim. Svo var ég farinn að reykja gras hérna á Íslandi og gerði það í eitt ár, þú mátt alveg skrifa það, ég er ekkert að fela það,“ segir Kuczek af því hispursleysi sem einkennir alla hans framkomu.

Marcin Banot var vendipunkturinn

„Svo einu sinni var náungi sem ég leigði með að sýna mér myndskeið af Marcin Banot [annáluðum pólskum húsaklifrara], hann er með rás á YouTube sem heitir BNT. Þá hætti ég að reykja gras og ákvað samstundis að mig langaði að gera það sem hann var að gera,“ segir Kuczek og örlög hans voru ráðin. Átrúnaðargoðin eru þó fleiri.

„Þú mátt aldrei gleyma því að aðalmaðurinn í klifri er Frakkinn Alan Robert, hann er sextugur og á að baki 200 byggingar. Ég hef alltaf verið í góðu formi og þegar ég tók þá ákvörðun að fara í klifrið fór ég að æfa „calisthenics“ af krafti [æfingakerfi þar sem eigin þyngd líkamans er notuð ein og sér],“ segir Kuczek frá.

Ást pólsku klifraranna blómstrar og Kuczek er þegar farinn að …
Ást pólsku klifraranna blómstrar og Kuczek er þegar farinn að leggja drög að áskorunum ársins 2023. Hann segir franskar byggingar fagrar en gríðarlega erfiðar. Ljósmynd/Aðsend

Eftir þriggja mánaða þjálfun hafi hann fundið að hann var tilbúinn og þá var ekki tvínónað við að hefjast handa. „Ég fór með vinum mínum til Barcelona til að klífa mína fyrstu byggingu, Agbar-turninn sem er 144 metra hár,“ segir Kuczek frá og réðst þar augljóslega ekki á garðinn þar sem hann er lægstur. Þvert á móti.

Turn þessi, sem nú orðið heitir reyndar Torre Glòries, var frumraunin og að sjálfsögðu klifinn í bol frá Bæjarins bestu, hvað annað?

Löggan ekkert mál

„Ég varð algjörlega heillaður eftir að ég kleif Agbar, ég gleymi því aldrei. Óttinn, tilfinningarnar, adrenalínið og fyrstu alvarlegu vandræði sem ég lenti í með lögregluna,“ telur Kuczek upp eins og hann sé að fara yfir innkaupalistann sinn úti í búð. Blaðamaður er forvitinn um afstöðu laganna varða gagnvart fólki sem klifrar upp hátt í 200 metra háar byggingar í leyfisleysi.

„Það eru svona sjö-átta manns í Evrópu sem eru að …
„Það eru svona sjö-átta manns í Evrópu sem eru að stunda þetta algjörlega án öryggisbúnaðar og ég vil komast inn í þann hóp.“ Ljósmynd/Aðsend

„Löggan er ekkert mál, við fáum nú oft hamingjuóskir og klapp á bakið þaðan þótt við séum tilefni útkalla, en öryggisverðirnir hata okkur get ég sagt þér. Þegar ég var búinn að stunda þetta í tvo mánuði klifraði ég upp aðra byggingu í Barcelona, Hótel Arts sem er 155 metra hátt, og þar lenti ég í harðri rimmu við öryggisverði, ég hélt þeir ætluðu á drepa mig á meðan við biðum eftir lögreglunni,“ segir klifurgarpurinn af för sinni á Hótel Arts, en turn Hallgrímskirkju er 74,5 metra hár til samanburðar.

Kuczek lætur þó engan bilbug á sér finna og trúir blaðamanni fyrir sínu háleitasta markmiði. „Það eru svona sjö-átta manns í Evrópu sem eru að stunda þetta algjörlega án öryggisbúnaðar og ég vil komast inn í þann hóp, ég er þegar búinn að setja mig í samband við einhverja úr honum. Eftir Agbar-turninn vildi ég bara meira,“ segir Pólverjinn af þessari ávanabindandi iðju sinni.

Stefnumót í 155 metrum

Hann kveður þann böggul þó fylgja skammrifi að hann hafi enga styrktaraðila enn sem komið er. „Þú vilt ná góðu myndefni og þéna af því. Þá þarftu að vera með fólk með þér sem stjórnar dróna eða tekur myndskeið með öðrum hætti en það kostar auðvitað peninga. Þetta er erfitt þegar maður hefur enga styrktaraðila,“ segir Kuczek á meðan blaðamaður reynir að ímynda sér hvaða íslensku fyrirtæki kæmu til greina í styrkveitingum fyrir svo jaðarsett jaðarsport.

Kuczek kann vel við lífið í Reykjavík. Blaðamaður ákvað að …
Kuczek kann vel við lífið í Reykjavík. Blaðamaður ákvað að minnast ekki á Hallgrímskirkju í viðtalinu. Ljósmynd/Aðsend

„Daniela er minn helsti styrktaraðili,“ segir Kuczek en á þó vitanlega ekki við fjárstyrki. „Eftir að ég kleif mína aðra byggingu fórum við til Frankfurt og klifum Skyper-turninn saman, hann er 155 metra hár,“ heldur hann frásögn sinni áfram eins og þau unnustan hafi skroppið út að hjóla.

Segir hann Danielu hafa æft af krafti fyrir afrekið. „Ég vissi að hún var tilbúin og við ákváðum áður en við lögðum í hann að eiga stefnumót í 155 metra hæð,“ segir Kuczek og það gekk eftir. „Við lentum í svaka veseni með lögguna á eftir,“ bætir hann við. Daniela þessi býr yfir reynslu sem sviðsleikkona í Póllandi auk þess að leggja stund á söng og dans svo þeim parinu er ýmislegt til lista lagt.

Fengu þau skötuhjúin háa fjársekt í Þýskalandi sem Kuczek kveður algengt. Á götunni fyrir neðan hafi hreint öngþveiti ríkt, fjöldi fólks safnaðist saman til að taka myndir og sjúkrabíla dreif að hvaðanæva.

Staðið á tveimur sentimetrum

„Lögreglan bíður alltaf eftir mér á þakinu,“ segir pylsusalinn og bætir því við að sektir geti hlaupið á 500 til 5.000 evrum, upphæð sem svarar til um það bil 74.000 til 740.000 króna. „Lögreglan í Þýskalandi er svo ströng, í Barcelona lenti ég reyndar líka í fangaklefa í klukkutíma á meðan ákvörðun var tekin um hvað ætti að gera við mig af því að þetta var annað skiptið sem ég var tekinn á Spáni,“ segir Kuczek og hvarflar þó ekki að honum að láta af iðju sinni.

Enginn verður óbarinn biskup eins og blóðugir fingur Kuczek við …
Enginn verður óbarinn biskup eins og blóðugir fingur Kuczek við sólarlag sýna hér glöggt. Ljósmynd/Aðsend

„Ég elska þetta hreinlega og ég á eftir að klífa svo margar byggingar, ég er kominn með áætlun um tvær eða þrjár á næsta ári,“ segir klifrarinn frá og kveðst einkar hrifinn af frönskum byggingum en þar hefur hann klifið tvær. „Þar eru svo fallegar byggingar en líka rosalega erfiðar. Til að æfa fyrir þannig byggingar geri ég líkan af ytra byrði þeirra í bílageymslunni heima hjá mér og æfi mig svo látlaust í að klifra. Þú getur lent í því þegar þú ert að hvíla á leiðinni upp að þurfa að standa á syllu sem er ekki nema tveir sentimetrar,“ lýsir hann miskunnarlaust svo blaðamann sundlar og verkjar.

Kuczek lagður af stað upp Agbar-turninn í Barcelona. Þar fékk …
Kuczek lagður af stað upp Agbar-turninn í Barcelona. Þar fékk hann að dúsa í fangaklefa eftir að hann var tekinn í annað skiptið á þaki byggingar. Ljósmynd/Aðsend

Undir lok magnaðrar frásagnar af umdeildri dægradvöl minnir Kuczek blaðamann á að sú iðja að klífa háar byggingar geri ótrúlega mikið fyrir geðið. „Þegar óttinn hríslast um mig verður einbeitingin hundrað prósent.

Og tilfinningin þegar toppnum er náð er ógleymanleg,“ segir Konrad Kuczek að lokum, sannarlega einn með öllu á Bæjarins bestu.

Hér má skoða Instagram-síðu Kuczek

mbl.is