Segir ákæruna mjög loðna

Sveinn Andri Sveinsson fyrir utan Héraðsdóm Reykjavíkur fyrr í dag.
Sveinn Andri Sveinsson fyrir utan Héraðsdóm Reykjavíkur fyrr í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sveinn Andri Sveinsson, verjandi annars mannanna sem hafa verið ákærðir fyrir tilraun til hryðjuverka hér á landi, segist hálfpartinn hafa búist við ákæru á hendur þeim en að innihald hennar hafi komið sér mjög á óvart.

Hann segir engar undirbúningsathafnir vera tilgreindar í ákærunni, sem séu forsenda þess að hægt sé að dæma mann fyrir tilraun til hryðjuverka.

„Síðan er ákæran mjög loðin. Það er bara talað um tilraun til hryðjuverks gegn ótilteknum hópi á ótilteknum stað,“ segir Sveinn Andri, sem telur ákæruna á mörkum þess að uppfylla skilyrði sakamálalaga um skýrleika.

„Almenna reglan er sú að til þess að ákærði í máli geti varist sökum sem á hann eru bornar verður að liggja fyrir hvaða sakir það eru,“ bætir hann við og segir lögin þess vegna gera miklar kröfur um skýrleika ákæru. Þær snúist um að menn geti tekið til varna í sönnunarferlinu.

Annar hinna ákærðu leiddur út úr Héraðsdómi Reykjavíkur.
Annar hinna ákærðu leiddur út úr Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Eins galið og hugsast getur“

Þrívíddarprentaðar byssur eru nefndar í ákærunni, að sögn Sveins Andra, og segir hann skjólstæðing sinn hafa játað „þau brot“ og að hafa selt slíka byssu. „Það er mjög sérstakt að það að selja frá sér byssur með ólöglegum hætti geti verið liður í hryðjuverkum vegna þess að þeir sem hafa verið ákærðir fyrir undirbúning hryðjuverka á Norðurlöndum hafa verið að sanka að sér annað hvort vopnum eða sprengiefnum til þess að nota við hryðjuverk en ekki að selja þau. Síðan hafa þessir aðilar yfirleitt verið í einhverjum tengslum við hryðjuverkasellur eða hópa, sem er ekki tilfellið með ákærða. Þannig að þetta er eins galið og hugsast getur,“ greinir Sveinn Andri frá.

Reiknar með aðalmeðferð í janúar

Fjögurra vikna gæsluvarðhaldsúrskurður yfir mönnunum hefur verið kærður til Landsréttar og reiknar Sveinn Andri með því að niðurstaða berist á mánudag eða þriðjudag.

Spurður hvenær málið hefst í Héraðsdómi Reykjavíkur segir hann að það fari „í allri sinni dýrð“ með öllum gögnum til héraðsdóms eftir helgi. Það er síðan undir dómara og héraðsdómi komið hvenær það verður þingfest. Reiknar hann með því að það verði í desember. Hann gefur sér síðan að málinu verði flýtt eftir mesta megni, þar sem mennirnir eru í gæsluvarðhaldi, og að aðalmeðferð hefjist í janúar.

mbl.is

Bloggað um fréttina