Heimurinn á að gleðjast yfir Víkingi

Víkingur Heiðar Ólafsson í New York í nóvember síðastliðnum.
Víkingur Heiðar Ólafsson í New York í nóvember síðastliðnum. Mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Anne-Sophie Mutter, einn virtasti fiðluleikari heims, er mikill aðdáandi Víkings Heiðars Ólafssonar píanóleikara. 

„Ég féll fyrir leik hans og listfengi fyrir nokkrum árum og svo hittumst við loksins á verðlaunahátíð, þar sem við vorum bæði heiðruð. Ég var í Lundúnum í sumar til að kveðja Roger Federer [tennisleikarann fræga, sem lagði spaðann á hilluna], og náði að skjótast á tónleika með Víkingi í sömu ferð, þar sem hann gerði Philip Glass frábær skil. Ég er mjög veik fyrir ungum og ástríðufullum tónlistarmönnum sem um leið eru klárir, vakandi og leitandi í list sinni. Víkingur er einn af þeim. Einstakur listamaður. Ég gæti talað við þig í allan dag um Bach-upptökurnar hans. Hann neglir þá túlkun eins vel og nokkur mannlegur máttur getur gert. Heimurinn á að gleðjast yfir því að eiga listamenn af þessu tagi.“

Anne-Sophie Mutter.
Anne-Sophie Mutter.


Anne-Sophie kemur fram ásamt strengjasveit sinni The Mutter Virtuosi í Hörpu 27. janúar. Hún kveðst hlakka mikið til heimsóknarinnar enda langt um liðið; hún var síðast hér á ferð árið 1985. „Ég á ljúfar minningar frá þeirri heimsókn, þetta stórbrotna landslag, gómsætur fiskur og mjög ástríðufullir áheyrendur. Ég er líka mjög spennt að spila í nýju tónleikahöllinni ykkar enda hafa kollegar mínir verið duglegir að dásama hana í mín eyru á umliðnum árum. Segja hana ekkert minna en stórkostlega. Við þetta bætist að ég hef bæði kynnst og dáðst að Víkingi undanfarin þrjú ár eða svo og hann hefur fært mig nær landinu ykkar. Gaman væri að hitta Víking í Reykjavík en ég held samt að hann verði að spila í Lundúnum á sama tíma.“

Ítarlega er rætt við Anne-Sophie í Sunnudsagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert