Umræðubann um Ljósleiðarann „skýrt brot“ á lögum

Kjartan Magnússon.
Kjartan Magnússon. mbl.is/Sigurður Bogi

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa óskað eftir því að í upphafi borgarstjórnarfundar í dag fari fram utandagskrárumræða um fundarstjórn, sem hefst klukkan 12 í dag. Ástæðan er sú að meirihlutinn lagði bann við því að umræða um málefni Ljósleiðarans, dótturfyrirtækis Orkuveitu Reykjavíkur, verði á dagskrá fundarins.

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. telur slíkt bann vera skýrt brot grein á 27. grein sveitarstjórnarlaga um réttinn til að bera upp mál. Hún er svohljóðandi:

  • Sveitarstjórnarmaður á rétt á að tekið verði á dagskrá sveitarstjórnarfundar hvert það málefni sem sérstaklega varðar hagsmuni sveitarfélagsins eða verkefni þess.
  • Mál sem ekki er tilgreint á útsendri dagskrá sveitarstjórnarfundar verður þó ekki tekið til afgreiðslu á viðkomandi fundi án samþykkis 2/ 3 hluta fundarmanna. 

Fram kemur í tilkynningu frá Kjartani, að borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar hafi bannað að umræða um málefni Ljósleiðarans, dótturfyrirtækis Orkuveitu Reykjavíkur, verði á dagskrá næsta borgarstjórnarfundar, sem haldinn verður í dag.

Vill ræða við borgarstjóra um stöðu Ljósleiðarans og Orkuveitunnar

„Þar hugðist ég ræða almennt um stöðu Ljósleiðarans og Orkuveitunnar og spyrja borgarstjóra hvaða áhrif síðustu fjármálagerningar fyrirtækjanna hafi á stöðu Reykjavíkurborgar og fjárhagsáætlun hennar, sem samþykkt var fyrir rúmri viku. 

Slíkt bann er brot á ákvæðum 27. greinar sveitarstjórnarlaga og 34. greinar samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. Þar er skýrt kveðið á um að borgarfulltrúi/sveitarstjórnarmaður eigi rétt á að tekið verði á dagskrá borgarstjórnarfundar hvert það málefni, sem sérstaklega varðar hagsmuni sveitarfélagsins eða verkefni þess,“ segir Kjartan. 

Valdníðsla og einræðistilburðir

Hann segir að borgarstjórnarmeirihlutinn hafi enga heimild til að hafna því að löglega fram borið mál sé sett á dagskrá borgarstjórnarfundar. Engin fordæmi séu fyrir slíku umræðubanni í borgarstjórn Reykjavíkur. Kjartan telur að með slíku banni gerist meirihlutinn sekur um valdníðslu og einræðistilburði. 

Hann bendir á að samkvæmt sveitarstjórnarlögum sé heimilt að ákveða að einstök mál skuli rædd fyrir luktum dyrum þegar það teljist nauðsynlegt vegna eðlis máls. Meirihlutinn hefði þannig getað samþykkt að halda fund fyrir luktum dyrum ef hann teldi að málefni Ljósleiðarans og Orkuveitunnar þyldu ekki dagsins ljós. 

Tilgangurinn að koma í veg fyrir umræðu

„Laumuspil og leyndarhyggja hafa einkennt vinnubrögð borgarstjórnarmeirihlutans í málinu. Kjörnir fulltrúar almennings og stjórnarmenn OR hafa hvað eftir annað neitað að tjá sig um málefni Ljósleiðarans. Gerist það þrátt fyrir að miklar umræður hafi átt sér stað í fjölmiðlum um fyrirhuguð kaup Ljósleiðarans á stofnneti Sýnar og þjónustusamning milli fyrirtækjanna. Ljóst er að umrædd ákvörðun er mikils háttar og að auki um að ræða margra milljarða kaup og fjárfestingu utan skilgreinds starfssvæðis OR. Mikilvægt er að fram fari umræða á vettvangi borgarstjórnar um þennan viðskiptasamning og þá stefnubreytingu, sem hann hefur í för með sér fyrir Ljósleiðarann, OR og Reykjavíkurborg. Slíka umræðu er vel hægt að taka á grundvelli upplýsinga, sem þegar hafa verið gerðar opinberar og ræddar í fjölmiðlum.  

Tilgangurinn með umræðubanni borgarstjórnarmeirihlutans er því greinilega sá að koma í veg fyrir umræðu, sem meirihlutanum finnst óþægileg, þ.e. um stórfellda lántöku Ljósleiðarans og áhrif hennar á fjárhagsáætlanir Reykjavíkurborgar og Orkuveitunnar. Þá er ljóst að borgarstjóri og borgarfulltrúar meirihlutans vilja firra sig ábyrgð á málinu en varpa henni þess í stað á stjórn Orkuveitu Reykjavíkur eftir því sem kostur er.“

mbl.is