Þriðjungsfjölgun á myglugreiningum

Nemendur Hagaskóla hafa þurft að leita annað.
Nemendur Hagaskóla hafa þurft að leita annað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikil fjölgun á rakaskemmdum og myglutilvikum í húsum endurspeglast í gífurlegri fjölgun myglusveppagreininga hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Þar voru greind 1.532 sýni á nýliðnu ári sem er 278 sýna fjölgun frá árinu á undan eða sem nemur 22%. Ef fjöldinn er borinn saman við árið 2020 sést að þriðjungsfjölgun hefur orðið. Fleiri rannsóknarstofur greina myglu nú en áður. Þá hefur þeim sýnum, sem send eru á rannsóknarstofu til Danmerkur til greiningar, fjölgað þegar mikill kúfur er í þessum tilvikum, eins og var í raun og veru meginhluta síðasta árs.

Verkfræðistofur vinna mest að könnun á rakaskemmdum og tilheyrandi örveruvexti. Nokkrar verkfræðistofur veita opinberum stofnunum, fyrirtækjum og einstaklingum þjónustu á þessu sviði og eru nokkrir starfsmenn eingöngu við þessi störf hjá að minnsta kosti þremur stofum. Mest áberandi hafa verið skólabyggingar í Reykjavík og víðar en vandamálið á við miklu fleiri hús. Björn Marteinsson, arkitekt og verkfræðingur, segir ekki tilviljun að opinberar byggingar komist í fréttirnar vegna myglu. Viðhald hafi verið skorið niður í bankahruninu og nú séu margar opinberar byggingar að nálgast fimmtugt og komið að miklu viðhaldi.

Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, líffræðingur hjá Eflu verkfræðistofu, segir sorglegt að þurfa sífellt að flytja starfsemi í nýjar byggingar vegna mygluvandamála. Telur hún að huga þurfi betur að þeim málum. Björn segir að flóknara sé að finna skýringar á rakaskemmdum í nýjum byggingum en eldri. Hann segir þó að gerð bygginga hér hafi breyst á síðustu 10-15 árum en sumar byggingatæknilegar lausnir sem innleiddar hafi verið henti ekki aðstæðum hér. Þurfi til dæmis að huga betur að ýmsum frágangsatriðum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert