Treglega gengur að flytja snjó úr Vesturbænum

Unnið að snjóruðningi. Mynd úr safni.
Unnið að snjóruðningi. Mynd úr safni. mbl.is/Golli

„Þetta gengur ágætlega en við erum enn að reyna að komast á áætlun í öllum hverfum. Það gengur helst treglega í Vesturbænum,“ segir Eiður Fann­ar Er­lends­son, yf­ir­maður vetr­arþjón­ustu hjá Reykja­vík­ur­borg í samtali við mbl.is.

„Við erum að keyra mikinn snjó í burtu alla leið upp á Sævarhöfða þar sem við losum hann við flæðarmálið. Göturnar eru þrengri og leiðin er lengri úr Vesturbænum en til dæmis úr efri byggðum sem hefur gengið hraðar að keyra úr.“

Allt kapp lagt á að komast á áætlun í vikunni

Eiður segir stöðuna orðna þannig að það sé búið að keyra svo miklum snjó upp á Sævarhöfða að þurft hafi að loka þar tímabundið.

„Á meðan er tekið við snjónum upp við Björgun en við vonum nú að sjórinn nái að berja á hrúgunni við Sævarhöfða svo við getum farið að nota það svæði aftur í næstu viku.“

Eiður segir að allt kapp verði lagt á að komast á áætlun í öllum hverfum í þessari viku en að auðvitað geti alltaf brugðið til beggja vona.

„Ef það tekst ekki alveg þá get ég fullyrt að það verður langt komið.“

mbl.is