Elliði svarar rektor Menntaskólans við Sund

Menntaskólinn við Sund.
Menntaskólinn við Sund. mbl.is/Árni Sæberg

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, segir glæruna sem hann birti á Facebook-síðu sinni fyrir helgi vera úr kennslustund í stjórnmálafræði í Menntaskólanum við Sund. Hann segir jafnframt að kennari áfangans hafi skipað fjórða sæti á lista Alþýðufylkingar í Reykjavík norður fyrir skömmu.

Frá þessu greinir Elliði í Facebook-færslu. Hann segir tilganginn með birtingu glærunnar á föstudag hafa verið að velta upp hvað væri til ráða til að koma í veg fyrir pólitískan áróður og innrætingu í kennslustofum.

Meinta glæran úr MS.
Meinta glæran úr MS.

Spyr í hvaða samhengi glæran sé réttlætanleg

Helga Sigríður Þórsdóttir, rektor MS, sagði við mbl.is í gær að glæran hefði verið tekin úr samhengi.

„Sömu rökin um „samhengi“ notaði skólameistari Verslunarskólans í réttlætingu á sambærilegri framsetningu þar sem Sigmundi Davíð var líkt við Hitler og Mussolini.

Ég hreinlega átta mig ekki á í hvaða samhengi þessar glærur og þessi framsetning á kennsluefni gæti átt rétt á sér í kennslustofum í skólum ykkar. Áhugavert væri að fá fram svör ykkar við þessu. Sem sagt, í hvaða samhengi teldir þú þessa glæru réttlætanlega?“ skrifar Elliði.

mbl.is

Bloggað um fréttina