„Full af lífsþrótti og greddu“

Leiksýningin Marat/Sade, sem verður frumsýnd í Borgarleikhúsinu 20. janúar, er óvenjuleg að því leyti að leikararnir eru frá sjötugu og allt upp í nírætt. 

Leikstjórinn Rúnar Guðbrandsson valdi þennan hóp til þess að fá tækifæri til þess að vinna „með þessu flotta listafólki“ eins og hann orðar það sjálfur. Hann segir þó einnig að lesa megi einhvern þráð um mögulega innilokun eða frelsissviptingu eldri kynslóðarinnar í valinu. En verkið fjallar um vistmenn geðveikrahælis sem setja upp leiksýningu. 

„Hér áður fyrr voru leikkonur bara búnar að vera um 35 ára,“ segir Árni Pétur Guðjónsson leikari þegar þeir eru spurðir hvort tækifæri fyrir eldri leikara hafi verið of fá. Karlkyns leikarar fái hins vegar hlutverk á borð við lögfræðinga, lækna og feður um leið og þeir séu komnir yfir fertugt. 

„Ungir hvítir karlmenn hafa verið aðal málið í leikhúsi hingað til.“ segir hann og bætir við að með því hafi listgreinin misst af tækifærum. 

En í Marat/Sade fá leikararnir tækifæri til þess að kljást við bitastæð hlutverk sem ekki eru upphaflega ætluð þeirra aldursflokki. „Það er alltaf verið að fjalla um eldri kynslóðina sem eitthvert vandamál,“ segir Rúnar. „En hérna fá þeir bara hlutverk sem eru full af lífsþrótti og greddu og guð veit hvað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert