„Þá stakk ég þig í sjálfsvörn“

Árásin í húsakynnum Bankastræti Club vakti þjóðarathygli í nóvember og …
Árásin í húsakynnum Bankastræti Club vakti þjóðarathygli í nóvember og var á tímabili gert ráð fyrir hreinni skálmöld helgina eftir sem þó varð ekki úr. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég þurfti að díla við ykkur vegna þess að ég hitti stelpu sem eg hitti í eitt skifti og til að byrja með fóruð þið á eftir mér fyrir hans hönd og byrjuðu að eyðinleggja bíla og ökutæki hja mér og mínum nánustu eins og til dæmis bílinn hans afa míns.“

Með þeim orðum hefst Facebook-færsla Davids Gabriels, sem sagður er hafa komið að árásinni í húsakynnum Bankastræti Club í nóvember, og er pistillinn svar við skrifum Skúla Arnar frá því á þriðjudagskvöldið þar sem hann merkir lögregluna á höfuðborgarsvæðinu efst í textanum og spyr í framhaldinu hvernig á því standi að 30 manns hafi gert hrottalega árás með hnífa á lofti en engu að síður sé aðeins einn þeirra í fangelsi og þar sé sá yngsti af árásarmönnum.

Kastaði af sér þvagi í bifreið afa Davids

Segir Skúli í framhaldinu: „David Gabriel maðurinn til hægri sem er leiðtogi hópsins í þessari árás og játaði á sig vera partur af árásinni er laus þótt hann hafi stungið mig fyrir einu og hálfi ári og það mál er enþa a loka stigi rannsóknar og búið að vera það i marga mánuði!!!

Ég var 2 vikur upp a spitala meðan hann var 3 daga í gæsluvarðhaldi og sama gerðist aftur núna með Bankastræti málið. Hvenær ætlar lögreglan og ákæruvaldið að takast a þessu.“

David kallar Skúla og ótilgreindan hóp í kringum hann níðinga sem ráðist ítrekað á fólk að tilefnislausu, sjálfur hafi hann aðeins tekið til varna í þeim viðsjám sem vaktar voru milli þeirra Skúla og nefnir David að nafngreindur piltur hafi brotið afturrúðu bifreiðar afans áðurnefnda og kastað af sér þvagi inn um brotna rúðuna.

Lögregla hafði uppi gríðarlegan viðbúnað í miðbænum helgina eftir árásina …
Lögregla hafði uppi gríðarlegan viðbúnað í miðbænum helgina eftir árásina en var þá allt með friði og spekt þrátt fyrir sögusagnir á samfélagsmiðlum um heilu rútufarmana af þungvopnuðum mönnum. mbl.is/Ari

„[Þ]ið eruð líka að bjóða fólki peninga til að setja mig upp og til að fá upplýsingar um mig og hvar eg væri að dvelja eftir mörg skifti að reyna ráðast á mig í hópum sem gekk aldrei hjá ykkur.

Með málið þar sem ég stakk þig þá komu þið um það bil 9 aðilar saman samkvæmt skýslu að ráðast á mig, þar sem þið brutust inn að aftan til að raðast a mig. Þið voruð allir vel vopnaðir og skáruð bróðir minn i andlitið, hann er með 10cm skurð í andlitinu eftir ykkur og þú varst líka með hníf það sést mjög vel á myndum að þú sért með hníf. Þar sem þið voruð að reyna stinga mig, bróðir minn og vin minn og við vorum bara 3 á móti ykkur þá stakk ég þig í sjalfsvörn,“ heldur David áfram.

„Útúr hellaður“ á afmælisdaginn

Kveður hann Skúla Örn og hans hóp aldrei hafa haft ástæðu til framangreindrar árásar, sjálfur hafi Skúli stungið annan sem David nafngreinir og segir hafa þurft að sauma fórnarlambið 132 sporum innvortis.

Segir hann sættir hafa tekist með þeim Skúla Erni eftir að hann, David, losnaði úr gæsluvarðhaldi sem hafi verið mun lengra en þrír dagar, „þá sættist þú við mig og játaðir þín mistök að hafa komið og ráðist á mig því það var að ástæðulausu“ heldur hann áfram og segir frið hafa komist á í kjölfarið.

Hafi sá friður lagst er til nýrrar árásar kom, í það skiptið hafi verið ráðist á David og fyrrverandi kærustu hans sem í þokkabót hafi verið ólétt af syni þeirra. „Sú árás var aftur af ástæðalausu og þið með löggukylfu og vopn og hótandi að ætla setja 10 göt í mig og kveikja í húsinu mínu.“

„[Þ]ið eruð líka að bjóða fólki peninga til að setja …
„[Þ]ið eruð líka að bjóða fólki peninga til að setja mig upp og til að fá upplýsingar um mig og hvar eg væri að dvelja eftir mörg skifti að reyna ráðast á mig í hópum sem gekk aldrei hjá ykkur,“ skrifar David í greinargerð sinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í kjölfarið hafi að sögn Davids gengið á ýmsu, kveikt í bifreiðum og aðrar skemmdar með öðrum hætti þar til sættir hafi tekist að nýju og allt verið með friði og spekt um stund. Það hafi þó breyst kvöld nokkurt þegar Skúli Örn var að sögn Davids „útúr hellaður“ á afmælisdaginn sinn og hafi þá dregið upp hníf á skemmtistað og haft í hótunum við dyraverði. Hafi lögregla þá komið á vettvang og hnífurinn verið gerður upptækur.

„Þannig að nú spyr ég þig...“

„[N]næst var þegar Abdula vinur þinn réðst a dyravarða vin minn af ástæðalausu og þá brutuð þið friðinn enn og aftur. Ég skifti mér af þeim málum og hann réðst síðan á mig og hljóp síðan í burtu og sótti vini sína Jhon og fleirri og þú komst þangað líka. Síðan lét hann sig hverfa þegar félagar mínir mættu,“ skrifar David þá.

Vinir Skúla Arnar hafi þá tekið að nafngreina David og birta myndir og myndskeið af honum á Instagram og væna hann þar um að vera „rotta og squealer [uppljóstrari]“ fyrir að kæra nafngreindan mann úr hópi Skúla Arnar sem að sögn Davids veittist að kærustu hans vopnaður kylfu.

Hótunum hafi þá rignt yfir David sem kveðst hafa haft um tvennt að velja, að greiða málskostnað kylfumannsins eða fá tíu göt á bolinn sinn og vísar hann þar væntanlega til stungusára. Segir hann þá af enn frekari skemmdarverkum, kveikt hafi verið í vélhjólum, og þrátt fyrir að hann hafi ávallt staðið við sitt og verið almennilegur kjósi Skúli Örn og hans fólk að fara erfiðu leiðina og „svíkja aftur og aftur“.

Enn situr einn í gæsluvarðhaldi eftir árásina en grunaðir skipta …
Enn situr einn í gæsluvarðhaldi eftir árásina en grunaðir skipta tugum. mbl.is/Inga

Eftir að hafa enn talið upp fjölda skemmdarverka og ávirðinga, þar á meðal bensínsprengjukast, rúðubrot og skemmdarverk á bifreið Davids á meðan hann var í bíó kastar hann fram lokaspurningu:

„Þannig nú spyr ég þig.... ef þú hugsar til baka hversu mikið fórnalamb ert þú ?? og hvað hef ég gert svona hræðilegt við þig fyrir utan að svara til baka þegar þú varst að reyna stinga mig ?? og því miður náði ég bara að komast undan þinni stungu og stakk þig. Læt fylga fullt af sönnunar myndum og videoum fyrir hin ykkur öll svo þið sjaið hvernig þessu hópur hefur látið,“ skrifar David Gabriel að lokum í svari sínu til Skúla Arnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert