Föst um borð í 17 tíma

Björgunarsveitarfólk aðstoðar á flugvellinum fyrr í dag.
Björgunarsveitarfólk aðstoðar á flugvellinum fyrr í dag. Ljósmynd/Landsbjörg

„Staðan er svipuð, við bíðum bara í vélinni,“ segir Gréta María Valdimarsdóttir, flugfarþegi Icelandair frá Seattle, sem ásamt samferðafólki sínu í fluginu hefur nú setið í tíu klukkustundir um borð í vélinni á Keflavíkurflugvelli vegna veðurs en Gréta María greindi mbl.is frá stöðu mála fyrr í dag.

Segir hún stemmninguna ágæta um borð, augljóst sé að aðstæðurnar séu ofar mannlegu valdi og önnur úrræði ekki tæk en að láta skeika að sköpuðu.

„Maður finnur helst til með öllum flugþjónunum sem þurfa að vinna marga klukkutíma fram yfir sína vakt og geta ósköp lítið sinnt okkur, það er enginn matur en við fáum vökva,“ segir Gréta María og bætir því við að langt sé liðið frá síðustu almennilegu máltíð.

Byrjað að hleypa úr öðrum vélum

Hún er að koma úr vinnuferð til Los Angeles eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag og er á ferð með fjórum vinnufélögum. Hafa farþegarnir nú setið um borð í 17 klukkustundir, sjö tíma flug frá Seattle og tíu tímar á flugvellinum. Hafa einhverjar spár verið gefnar út?

„Það er búið að segja okkur að eitthvað sé að lægja en við vitum ekki meira. Björgunarsveitin er hætt að vinna og er ekki að fara að koma fyrr en lægir eitthvað,“ segir Gréta María sem reyndar er ekki að koma úr steikjandi hita í Los Angeles.

„Nei nei, það voru 15 gráður eða svo þannig að við vorum alveg í jakka, en samt sól. Svona dæmigert haustveður bara,“ segir Gréta María að skilnaði en mbl.is mun fylgjast áfram með gangi mála á Keflavíkurflugvelli.

Áður en viðtalið var tilbúið til birtingar hafði Gréta María samband og kvaðst hafa spurnir af því að byrjað væri að hleypa farþegum úr öðrum flugvélum, einni í einu. Þá hefðu fregnir borist af því nú fyrir örskömmu að vél þeirra samferðafólksins væri næst í röðinni.

mbl.is