Seinkanir í dag vegna óveðursins í gær

Tvær vélar Play komust í loftið í gærmorgun. Um 12 …
Tvær vélar Play komust í loftið í gærmorgun. Um 12 tíma seinkun var á hinum þremur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Einhverjar raskanir verða á flugáætlun Play í dag vegna óveðursins í gær en mikið hvassviðri gerði það að verkum að seinka þurfti verulega þremur flugferðum félagsins þá. Hafði það m.a. áhrif á tengifarþega í Bandaríkjunum. Flugfélagið vinnur nú að því að koma þeim á leiðarenda.

Nadine Guðrún Yaghi, upplýsingafulltrúi félagsins, segir að um þriggja til fjögurra tíma seinkun verði á vélunum í dag en að gert sé ráð fyrir að allt verði á áætlun frá og með morgundeginum.

Biðu í einn og hálfan tíma eftir að komast í land

Tvær af fimm vélum Play komust í loftið í gærmorgun áður en óveðrið skall á. Að sögn Nadine var um 12 klukkutíma seinkun á hinum þremur vélunum.

Í einni þeirra voru farþegar komnir um borð um morguninn og sátu þar í rúma klukkustund áður en þeim var vísað aftur inn í Leifsstöð. Í millitíðinni fóru þeir sem áttu bókað flug ýmist heim eða biðu á flugvellinum eftir brottför.

Þá lentu tvær flugvélar Play klukkan 14.30 í gær á Keflavíkurflugvelli. Að sögn Nadine voru allir farþegar komnir í Leifsstöð klukkan 16. 

mbl.is