Eftirlýstur maður hlaupinn uppi

Lögreglan að störfum.
Lögreglan að störfum. mbl.is/Hari

Upp úr klukkan eitt í nótt gaf lögregla ökumanni bifreiðar merki um að stöðva akstur svo hægt væri að kanna með ástand og réttindi hans. Ökumaðurinn virti ekki stöðvunarmerki lögreglu og ók á ofsahraða og endaði utan vegar.

Atvikið átti sér stað í umdæmi lögreglunnar í Kópavogi og Breiðholti. Litlu mátti muna að bifreiðin endaði inni í garði. Ökumaðurinn tók þá á rás en var hlaupinn uppi og handtekinn. Ökumaðurinn reyndist einnig eftirlýstur hjá lögreglu vegna annarra mála auk þess að vera grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Hann var vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar, að því er kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Veittist að leigubílstjóra

Leigubílstjóri óskaði um hálfeittleytið í nótt aðstoðar vegna farþega sem veittist að honum með ofbeldi í Reykjavík. Að auki olli hann skemmdum á leigubifreiðinni. Árásarmaðurinn var handtekinn og vistaður í fangaklefa þar til hægt verður að ræða við hann sökum vímu.

Ók út af í Heiðmörk

Á tólfta tímanum í gærkvöldi óskaði ökumaður bifreiðar aðstoðar lögreglu eftir að hafa ekið út af í Heiðmörk. Hann kenndi sér meins en afþakkaði aðstoð sjúkraflutningamanna.

Um eittleytið í nótt var tilkynnt um ökumann sem virtist sofa undir stýri bifreiðar á gatnamótum í umdæmi lögreglunnar í Hafnarfirði og Garðabæ. Þegar lögregla hafði afskipti af ökumanninum reyndist hann undir áhrifum áfengis. Hann var færður á stöð og látinn laus að blóðsýnatöku lokinni.

Á tólfta tímanum í gærkvöldi var einn handtekinn vegna líkamsárásar í Reykjavík og vistaður í fangaklefa þar til hægt verður að ræða við hann sökum ölvunar.

Tilkynnt var um þjófnað úr verslun í umdæmi lögreglunnar í Kópavogi og Breiðholti um sjöleytið í gærkvöldi. Málið var afgreitt á vettvangi.

mbl.is