Sögufrægur bar til sölu

Við þetta borð átti landinn góðar stundir áratugum saman á …
Við þetta borð átti landinn góðar stundir áratugum saman á því sem lengi var eitt reffilegasta hótel landsins. En nú er hún Snorrabúð stekkur og hótelið er horfið á braut, Háskóli Íslands tekur húsið undir menntun þjóðarinnar. Ljósmynd/Efnisveitan.is

„Þetta kom til af því að nú er verið að breyta Hótel Sögu og okkar hlutverk hjá Efnisveitunni er að hjálpa jörðinni að nýta sem best það sem hún gefur af sér,“ segir Hugi Hreiðarsson í samtali við mbl.is en saman stofnuðu þeir bræður, hann og Bogi Auðarson, fyrirtækið Efnisveitan.is.

Þar á bæ er miðlað fyrir stofnanir, bæjarfélög, fyrirtæki og einstaklinga, ýmiss konar notuðum efnivið og húsbúnaði enda umhverfisvitund að ná æ sterkari undirtökum í huga almennings.

Kveikjan að þessu spjalli er gripur sem margur Íslendingurinn kannast vel við og margir hafa staðið við – hvort tveggja að innan- sem utanverðu yfir áratuga tímabil. Þetta er barinn úr hinum fornfræga Súlnasal á Hótel Sögu.

Ekki minnsti barinn

„Þetta er mjög vel smíðaður og flottur gripur og verður sómi að honum hvar sem hann mun birtast að nýju,“ segir Hugi og játar að barnum hafi verið sýndur verðskuldaður áhugi og ýmsir haft samband við þá bræður. „Þetta er náttúrulega ekki minnsta gerð af bar og hann þarf auðvitað að passa vel þar sem hann verður settur upp, við erum reyndar með eina spennandi fyrirspurn nú þegar,“ heldur hann áfram.

Sú fyrirspurn komi úr nýrri átt en eðlilega telur Hugi ekki rétt að gefa nánari upplýsingar um hugsanlegan viðskiptavin. Barverðið er 150.000 krónur sem líklega er ekki okurverð fyrir haganlega smíðaðan og sögufrægan grip án þess að blaðamaður ætli sér að hafa þar skoðun á enda lítið fengist við smíðar um dagana.

Hugi er því næst spurður um tilurð Efnisveitunnar og reynist þar búa að baki saga sem teygir anga sína til byggða Vestur-Íslendinga í Kanada, njósnamála í Bretlandi á stríðstímum og eins af þekktari rithöfundum aldarinnar sem leið.

„Þetta kom þannig til að við Bogi bróðir vorum að stofna afþreyingarfyrirtæki, svokallað „escape room“ eða ráðgátuherbergi, og vorum að leita að sögunni sem átti að vera þar að baki. Datt okkur þá í hug að segja söguna af William Stephenson sem við rákumst á í þætti Egils Helgasonar um Vesturfarana.

Fyrsta faxtækið

Okkur fannst þessi saga um Stephenson svo mögnuð að úr varð True Spy-sögukjallarinn þar sem við segjum söguna um Stephenson á klukkutíma. Við tókum okkur sjö ár í verkefnið og fórum meðal annars til Winnipeg, Toronto, New York, Bermúda og London í heimildaöflun. Stephenson var margmilljónamæringur, hann átti íslenska móður og var alinn upp af íslenskri fjölskyldu í Winnipeg,“ segir Hugi frá.

Við True Spy-kjallarann á Vesturgötu, frá vinstri Bogi Auðarson, Tony …
Við True Spy-kjallarann á Vesturgötu, frá vinstri Bogi Auðarson, Tony Carreia og Hugi Hreiðarsson. „Þessi ágæti maður var einn af bestu vinum Williams Stephenson, hann kom hingað til lands þegar við opnuðum kjallarann formlega í fyrrasumar,“ segir Bogi frá. „Bókin sem hann heldur á er kölluð biblían, hún fjallar um njósnastarfsemi Stephenson og var aðeins gefin út í tíu eintökum, við erum þarna með mjög fágætt afrit af henni. Carreia kom hingað til lands til að hjálpa okkur og sjá þetta hjá okkur, hann er fæddur 1930, verður 93 ára í ár.“ Ljósmynd/Aðsend

Rekur hann svo ævi Íslendingsins hálfa í stuttu máli, hann barðist í fyrri heimsstyrjöldinni sem flugmaður en eftir að henni lauk fluttist hann til Bretlands. Var Stephenson þar við störf í útvarpsgeiranum og tók þátt í því sem varð vísirinn að fyrsta faxtækinu og varð sér þar úti um einkaleyfi sem færði honum stórfé og var hann orðinn auðkýfingur um þrítugt. „Hann átti meðal annars stærstu stálverksmiðju, sementsverksmiðju og stærsta kvikmyndaframleiðslufyrirtækið í Bretlandi svo eitthvað sé nefnt,“ heldur Hugi áfram.

Stephenson varð svo ráðgjafi Churchills forsætisráðherra í aðdraganda síðari heimsstyrjaldarinnar og gat upplýst hann um hergagnaframleiðslu nasista þar sem Stephenson var stór stálkaupandi og sá að stærsti kaupandinn á móti honum var Þýskaland. „Það var til að búa til hergögn sem þeir þó máttu ekki gera,“ segir Hugi.

Hvernig tengist þetta sölu innanstokksmuna?

„Þegar stríðið skellur á er hann svo ráðinn sem yfirmaður leyniþjónustu Breta í New York, þar var hann tengiliður milli Churchills og Roosevelt Bandaríkjaforseta. Churchill sendi svo Ian Fleming vin sinn til New York og þeir Stephenson hófu samstarf. Eftir stríðið urðu þeir svo nágrannar í fimmtán ár á Jamaíka og þar drakk Fleming í sig sögurnar um hinn sanna James Bond sem er þessi Vestur-Íslendingur,“ segir Hugi frá.

Tengsl þessarar frásagnar við verslun með notaðan húsbúnað á Íslandi eru ekki augljós en Hugi kann skýringar á því.  

„Við gerð sögukjallarans, sem staðsettur er beint á móti Borgarsafninu, vildum við viða að okkur notuðum efnivið. Við sáum að verið var breyta Landssímahúsinu og fengum þar eitt og annað sem nýttist við True Spy-sögukjallarann. Jafnframt sáum við að þarna inni var fjölmargt sem mátti endurnýta svo sem hurðir, gler og annað og fyrsti vísirinn að Efnisveitunni varð til.

Barinn gamli úr Súlnasalnum er hin mesta dvergasmíð og ljóst …
Barinn gamli úr Súlnasalnum er hin mesta dvergasmíð og ljóst að höfundur hans kastaði ekki til höndunum við verk sitt. Ljósmynd/Efnisveitan.is

Þetta var árið 2016 og hefur vaxið þannig hjá okkur að við erum að vinna fyrir fjölmörg fyrirtæki, stofnanir og bæjarfélög með það að markmiði að nýta sem best það sem jörðin gefur af sér. Vöruhús okkar er í kjallara undir gamla ELKO í Skeifunni 7 en þar er bara brot af því sem við erum að miðla, megnið er staðsett hjá eigendum,“ útskýrir Hugi.

Íslenskur áhugi og kraftur

Þeir bræður eru stórhuga, í grunninn er það jörðin sjálf sem þeir eru að vinna fyrir heldur hann áfram, tilgangur þeirra sé að hjálpa til við að nýta sem best það sem jörðin gefur af sér.

„Og það er gaman að segja frá því að við erum núna komnir með 18.000 fylgjendur á Facebook sem sýnir vel áhuga og kraft Íslendinga við að leggja sitt af mörkum til hringrásarhagkerfisins,“ segir Hugi Hreiðarsson og bætir því við sem lokaorðum þessa spjalls að nú þyki það orðið gamaldags hugsunarháttur að alltaf þurfi að kaupa ný skrifborð, nýja skrifborðsstóla og nýja skápa, hvað þá hurðir og gólfefni. 

mbl.is