Erfðafræðileg rannsókn sannaði ekki faðerni

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu í dag að mannerfðafræðileg rannsókn …
Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu í dag að mannerfðafræðileg rannsókn nægði ekki til sönnunar á faðerni. Kristinn Ingvarsson

Hæstiréttur hafnaði í dag kröfu tveggja aðila um viðurkenningu á erfðarétti að dánarbúi þótt að sýnt hefði verið með mannerfðafræðilegri rannsókn að faðir aðilanna væri sonur hins látna. 

Sóknaraðilarnir tveir héldu því fram fyrir hæstarétti að mannerfðafræðileg rannsókn sýndi fram á að faðir þeirra væri sonur hins látna og þeir væru því niðjar hins látna og réttmætir lögerfingjar dánarbúsins. 

Aðilarnir vísuðu jafnframt til fyrstu greinar erfðalaga og bentu á að ákvæðið hafi verið sett áður en unnt var að staðreyna faðerni með mannerfðafræðilegum rannsóknum og héldu því fram að vegna þessa gæti ákvæðið ekki staðist. Erfðalögin voru sett árið 1962.

Faðernið aldrei formlega viðurkennt

Varnaraðilar í málinu voru allir lögerfingjar hins látna og kröfðust þess að sóknaraðilar hlytu ekki lögerfðatengsl við hinn látna og að þeim yrði því neitað um tilkall til arfsins. Því til stuðnings bentu varnaraðilar á að faðerni föður aðilanna hafði ekki verið formlega viðurkennt með dómi.

Í niðurstöðu sinni vísar hæstiréttur til erfðalaga, lögskýringargagna og lögbundinna skilyrða um feðrun barna samkvæmt barnalögum og komst að þeirri niðurstöðu að mannerfðafræðileg rannsókn nægði ekki ein og sér til viðurkenningar erfðatilkalls. 

Samkvæmt barnalögum verður barn eða aðili aðeins feðraður með faðernisviðurkenningu sem kemur fram með skriflegu samþykki frá meintum föður eða dómsúrlausn.

Dómurinn ítrekaði að miklu máli skipti að lagagrundvöllur erfðatilkalls sé traustur og fyrir fram afmarkaður og vísaði því til Alþingis að kveða á um inntak og efnisskilyrði slíks réttar.

mbl.is