Uppgefinn eftir próflestur og svaf í bílnum

Tilkynnt var um ökumann sem svæfi fram á stýri bifreiðar. Þegar höfð voru afskipti af honum tjáði hann lögreglunni á Vínlandsleið að hann væri uppgefinn eftir próflestur liðinna daga og hefði verið að leggja sig áður en hann færi að versla í matinn.

Á sjötta tímanum í gær var óskað aðstoðar lögreglu við að vísa fólki út úr stigagangi í Reykjavík sem hafði komið þangað til þess eins að neyta fíkniefna.

Kærður fyrir vörslu á kökum

Lögregla fór í húsleit á heimili í miðbæ Reykjavíkur klukkan sjö í gærkvöldi. Einn var kærður fyrir vörslu á kökum sem grunur leikur á um að innihaldi kannabisefni, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Upp úr klukkan hálfátta í gærkvöldi voru tveir handteknir í umdæmi lögreglunnar í Hafnarfirði og Garðabæ vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Að auki áttu þeir að hafa valdið skemmdum á bifreið sem ekki var talin í þeirra eigu. Þeir voru vistaðir í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.

Tilkynnt var um aðila sem reyndi að fara inn í bifreiðar á áttunda tímanum í gærkvöldi í umdæmi lögreglunnar í Kópavogi og Breiðholti. Lögreglunni tókst ekki að hafa uppi á honum.

Tveir ökumenn voru jafnframt stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum vímuefna.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert