Fimm og hálft ár fyrir amfetamín

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi konu í fimm og hálfs árs fangelsi …
Héraðsdómur Reykjaness dæmdi konu í fimm og hálfs árs fangelsi fyrir innflutning á 3.800 ml af amfetamínbasa í ágúst í fyrra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt Önnu Lefik-Gawryszczak til fimm og hálfs árs fangelsisvistar fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa staðið að innflutningi á samtals 3.800 ml af amfetamínbasa, 40 til 43 prósent að styrkleika, sem ætlaður var til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni.

Neitaði ákærða sök við meðferð málsins en krafðist til vara vægustu refsingar er lög leyfðu auk sakarkostnaðar úr ríkissjóði.

Eru tildrög málsins þau að sunnudaginn 14. ágúst í fyrra stöðvuðu tollverðir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar dómfelldu, sem er pólskur ríkisborgari, ásamt samferðakonu hennar en þær voru þá að koma úr flugi frá Varsjá í Póllandi.

Við leit komu í ljós fjórar vínflöskur, tvær í farangri hvorrar þeirra samferðakvennanna, og kviknaði grunur tollvarða um að innihald flasknanna væri ekki áfengi. Leiddi rannsókn á innihaldi þeirra fíkniefnið í ljós.

Hægt að framleiða allt að tíu kílógrömm

Við skýrslutöku hjá lögreglu kvað dómfellda mann að nafni Marek hafa beðið hana fyrir flöskurnar sem hún hefði átt að færa ótilgreindum manni á Íslandi að gjöf. Sagðist hún þá hafa beðið vinkonu sína að taka tvær flöskur á móti sér í ferðalaginu sem ætlað hefði verið til að njóta íslenskrar náttúru. Hafi hún keypt flugmiða og beðið vin sinn á Íslandi að annast hótelbókun.

Í matsgerð rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði um útreikning á því hve mikið magn amfetamíns af neyslustyrkleika sé hægt að búa til úr 3.800 ml af vökva kom fram að neyslustyrkleiki amfetamíns hefði ekki verið rannsakaður nýlega en sá styrkleiki væri hins vegar breytilegur milli landa, borga og tímabila.

Gengi matsgerðin út frá neyslustyrkleika í Danmörku sem að meðaltali hafi verið 14 prósent árið 2020. Varla væri unnt að komast hjá minna tapi en sem nemur tveimur prósentum af þunga efnisins við að breyta amfetamínbasa yfir í amfetamínsúlfat og að þessum forsendum gefnum væri mögulegt að framleiða allt að tíu kílógrömm af amfetamíni með 14 prósenta styrk úr innflutta basanum.

Ekki beðin að fela flöskurnar

Við yfirheyrslur meðan á rannsókn málsins stóð kvaðst dómfellda ekki kannast við pólskt símanúmer sem fjórum sinnum hefði verið hringt úr í síma hennar eftir að hún lenti á Íslandi. Kvaðst hún hvorki neyta áfengis né fíkniefna nema við „sérstök tækifæri“ og fjárhagur hennar væri þokkalegur, þó ívið lakari eftir heimsfaraldurinn, en dómfellda rekur fyrirtæki í Póllandi.

Neitaði hún sök frá upphafi og kvaðst aldrei hafa grunað að flöskurnar innihéldu annað en áfengi. Kvaðst hún vera mjög greiðvikin, ekki síst við fólk sem hún þekkti ekki neitt.

Samferðakonan hafði stöðu vitnis í málinu og kvaðst ekki hafa rennt í grun að flöskurnar innihéldu annað en áfengi, dómfellda hefði ekki beðið hana að fela þær sérstaklega í farangrinum og innihald þeirra hefði aldrei borið á góma. Hefði hana aldrei grunað annað en að þær væru á leið í skoðunarferð til Íslands. Þær hefðu þekkst í um fjögur ár og dómfellda hefði greitt fyrir báða flugmiðana með því fororði að samferðakonan gerði upp við hana síðar.

Vinurinn sem annaðist hótelbókunina kom einnig sem vitni fyrir dóminn en hann kvaðst starfa sem vaktstjóri á Grand hóteli en auk þess reka eigið flutningafyrirtæki. Hann hefði þekkt dómfelldu í þrjú eða fjögur ár og verið henni innan handar í hótelmálum á Íslandi fyrir þessa tilteknu heimsókn sem honum hefði skilist að gengi út á að skoða íslenska náttúru og eldfjöll.

Stundum með húfu og stundum með skegg

Þegar dómfellda birtist ekki á tilsettum tíma hefði vitnið gert sér ferð á lögreglustöðina við Hverfisgötu daginn eftir til að grennslast fyrir og tilkynna um meint hvarf hennar. Hefði lögregla þá neitað að veita vitninu nokkrar upplýsingar. Leitaði vitnið þá til pólska sendiráðsins tveimur dögum síðar auk þess að fara á Lind hótel og afpanta hótelbókun sem það hefði gengið frá fyrir dómfelldu og samferðakonu hennar.

Þegar dómfellda var spurð nánar út í afhendingu vínflasknanna kvaðst hún hafa tekið við þeim á bílastæði í Varsjá úr hendi manns sem tengdist fyrrnefndum Marek. Þrátt fyrir að hafa, að hennar sögn, hitt Marek nokkrum sinnum gat hún ekki gert grein fyrir því hvort hann væri hávaxinn eða lágvaxinn, ljós eða dökkur á hörund. Fékkst eingöngu sú lýsing að stundum væri Marek með húfu og stundum með skegg.

Að mati dómsins var framburður dómfelldu um tildrög og ástæður ferðalagsins með ólíkindum og allur hinn fjarstæðukenndasti enda gæti ekkert sem fyrir lægi í málinu rennt stoðum undir frásögnina.

Enginn vafi á söludreifingu

„Þá hefur ákærða engar skýringar getað gefið á því hverjum umræddar flöskur voru ætlaðar aðrar en þær að henni hafi verið falið að afhenda þær ótilgreindum aðila hér á landi sem gjöf eða „þakklætisvott“. Að auki liggur fyrir að ákærðu bárust fjögur símtöl úr tilgreindu pólsku númeri eftir að hún kom til landsins, sem ákærða hefur ekki getað gefið fullnægjandi skýringar á að mati dómsins,“ segir í rökstuðningi.

Enn fremur segir þar: „Að framangreindu virtu verður ákærða því sakfelld fyrir að hafa flutt umrædd fíkniefni inn til landsins með þeim hætti sem lýst er í ákæruskjali. Í málinu liggur fyrir skýrsl[ur] rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði sem staðfestar hafa verið fyrir dómi þar sem fram kemur að unnt væri að framleiða úr því ríflega tíu kíló af efni sem væri 14% að styrkleika. Þegar horft er til magns og styrkleika efnanna, sem er umtalsvert, þykir enginn vafi leika á því að efnin hafi verið ætluð til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni.“

Var niðurstaðan þar með fimm og hálfs árs fangelsi en til frádráttar þeirri refsingu kæmi gæsluvarðhald frá 15. ágúst 2022 að fullri dagatölu. Var dómfelldu gert að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns auk ferðakostnaðar verjandans og annars sakarkostnaðar.

mbl.is