Play á áætlun á meðan Icelandair aflýsir flugi

Icelandair aflýsti flugi í morgun en allt flug nema eitt …
Icelandair aflýsti flugi í morgun en allt flug nema eitt var á áætlun hjá Play. Samsett mynd

Icelanda­ir hef­ur af­lýst öll­um flug­ferðum frá Banda­ríkj­un­um og Kan­ada til Kefla­vík­ur vegna veðurs, auk þess sem flug­fé­lagið hef­ur af­lýst morg­un­flugi til landa víða um Evr­ópu. Play aflýsti einu flugi í morgun en annað er á áætlun.

„Allt áætlunarflug okkar til Evrópu í morgun fór á áætlun nema eitt, til Liverpool. Sama gildir um Bandaríkjaflugin sem komu inn í nótt,“ segir Nadine Guðrún Yaghi, sam­skipta­stjóri Play í samtali við mbl.is.

Hún segir að flugfélagið hafi hvorki aflýst Bandaríkjaflugi né Evrópuflugi.

„Það er búið að vera allt hérna á fullu síðustu daga við að reyna að skipuleggja þetta við að reyna að finna leið til þess að láta þennan dag ganga upp af því við vissum að þessi spá væri í kortunum.

Við ákváðum í gær og í fyrradag að flýta aðeins áætlunum okkar þannig að Bandaríkjavélarnar væru aðeins fyrr á ferðinni til að sleppa við veðrið. Sama gildir um Evrópubrottfarirnar í morgun,“ segir Nadine og bætir við að öryggi farþega sé alltaf „númer eitt, tvö og þrjú“.

Aukaflug innanlands á morgun

Icelandair aflýsti millilandaflugi eins og fyrr segir en einnig var öllu innanlandsflugi aflýst í dag vegna veðurs.

„Við erum búin að setja upp aukaflug á morgun til Akureyrar, Egilsstaða og Ísafjarðar. Til þess að koma öllum farþegum úr ferðum dagsins á áfangastað á morgun var tekin ákvörðun um að nota 184 sæta Boeing 757 farþegaþotu í aukaflug til og frá Akureyri og Egilsstöðum á morgun,“ segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, í skriflegu svari til mbl.is.

Um 1700 farþegar Icelandair nýttu sér fyrirbyggjandi aðgerðir flugfélagsins vegna slæmrar veðurspár fyrir daginn í dag en farþegar sem áttu bókað flug í dag bauðst að flýta ferðalaginu.

„Upphaflega áttu um 3.700 bókað flug á þessum tíma en vegna aðgerðanna er nú gert ráð fyrir að raskanirnar hafi áhrif á um 2.000 farþega,“ segir í tilkynningu Icelandair frá því í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert