„Held að allir séu komnir með nýja ferðaáætlun“

Guðni segir það einnig létta undir, að Icelandair hafi gripið …
Guðni segir það einnig létta undir, að Icelandair hafi gripið til forvirkra aðgerða þegar ljóst var orðið að veðurskilyrði föstudags gætu teflt í tvísýnu flugáætlunum. Ljósmynd/Icelandair

Farþegar sem áttu bókað flug með Icelandair milli Ísafjarðar og Reykjavíkur, eða milli Grænlands og Reykjavíkur, munu ekki komast leiðar sinnar í dag. 

Fjölda flugerða var aflýst í gær sökum veðurs. Settar voru af stað aukaferðir, þar sem meðal annars hafa verið nýttar Boeing 757-vélar innanlands, sem taka 184 farþega í sæti. Þannig reynir Icelandair að koma öllum milli staða innan dagsins, eða eins fljótt og auðið er. 

Veður á Ísafirði og á Grænlandi hefur aftur á móti valdið röskunum á ferðum til og frá þeirra áfangastaða. 

Forvirkar aðgerðir léttu undir

Varðandi millilandaflugið hefur sömuleiðis verið lögð áhersla á að bóka strandaglópa í flug og koma þeim á áfangastað. „Það hefur gengið mjög vel, ég held að allir séu komnir með nýja ferðaáætlun. Við erum með stóra og öfluga áætlun með mikilli tíðni svo yfirleitt er hægt að leysa úr þessu innan okkar áætlunar,“ segir Guðni Sigurðsson upplýsingafulltrúi Icelandair. 

Guðni segir það einnig létta undir að Icelandair hafi gripið til forvirkra aðgerða þegar ljóst var orðið að veðurskilyrði föstudags gætu teflt flugáætlunum í tvísýnu. 

„Við buðum fólki að færa ferðir sínar til um einn dag, 1.700 manns nýttu sér það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert