Mikilli uppbyggingu og endurbótum á aðstöðunni í Kerlingarfjöllum lýkur í sumar, en þá opnar svæðið undir heitinu Highland base - Kerlingarfjöll. Verður þar gistimöguleiki fyrir um 120 manns, nýr veitingastaður fyrir um 80 manns og baðaðstaða fyrir gesti svæðisins. Boðið verður upp á allt frá svefnpokapláss í fjallaskálastíl yfir í hótelherbergi og sér skálahús.
Svæðið á að verða heilsársáfangastaður og á veturna verða daglegar ferðir á fjallajeppum frá Gullfosssvæðinu. Uppbyggingin er leidd áfram af Bláa lóninu sem mun taka við rekstri ferðaþjónustu á svæðinu.
Magnús Orri Marínarson Schram er framkvæmdastjóri Kerlingarfjalla. Í samtali við mbl.is segir hann að uppbyggingin hafi hafist af fullum krafti fyrir 3-4 árum, en meðal annars hefur nýtt veitingahús verið byggt á grunni þess gamla, eldri hús færð og nýrri hótelbyggingu bætt við. Hann segir að aðstæðan verði opnuð í júlí og að utanhúsframkvæmdum ljúki svo í sumar.
„Við erum að fá nýbyggingar til að vinna með eldri byggingum. Við viljum leyfa eldri byggingum að vera áfram einkennandi,“ segir Magnús, en fyrsti skáli á svæðinu var byggður árið 1937 af Ferðafélagi Íslands. Á sjöunda áratugnum bættust svo við svefnálma og veitingastaður, en þá var svæðið orðið vinsælt skíðasvæði og þar rekinn skíðaskóli.
Magnús nefnir að nýja veitingahúsið muni tengjast tveimur hótelbyggingum, bæði enduruppgerðri eldri byggingu sem og nýrri hótelbyggingu þar sem verða 28 herbergi sem snúa út að Hrútfellinu. „Þetta verður hjarta staðarins,“ segir Magnús, en í kjallara veitingahússins verður búningsklefar fyrir baðaðstöðuna sem verður þar rétt hjá. Á efri tveimur hæðum veitingahússins verður svo veitingaaðstaða.Farið var í að bora eftir heitu vatni, en á svæðinu er jarðhiti. Segir Magnús að heita vatnið sé bæði nýtt til að hita upp húsin á svæðinu sem og í baðsvæðið. Þá er einnig að mestu eigin rafmagnsframleiðsla á svæðinu með lítilli virkjun í Ásgarðsánni, auk þess sem svæðið er tengt með ljósleiðara.
Þeir sem til þekkja í Kerlingarfjöllum muna eflaust eftir gömlu A-húsunum sem voru nokkuð einkennandi fyrir svæðið og voru fyrir ofan veg. Magnús segir að þau hafi verið færð neðar á svæðið fyrir neðan veg og þau gerð upp. Mun gisting þar flokkast undir svefnpokapláss (e. hostel) , en auk þess verður í gamla FÍ skálanum sameiginlegt svefnpokapláss.
Eins og fyrr segir verður hótelið og veitingaaðstaðan í miðju svæðisins, en ofar verða svo sér svefnskálar með betri aðbúnaði. Hægt er að sjá þetta nánar útlistað á meðfylgjandi mynd.
Segir Magnús að þarna verði því aðstaða fyrir alla hópa ferðafólks, enda sé hugmyndin að lokka að alla þá sem hafi áhuga á að upplifa og skoða svæðið, hvort sem það séu Íslendingar eða erlendir ferðamenn. Bendir hann á að svæðið hafi verið vinsælt til fjallaskíðunnar undanfarin ár og að Íslendingar hafi talsvert sótt í það vegna þess. Þá hafi þúsundir Íslendinga lært þar á skíði á seinni hluta síðustu aldar.
Með daglegum ferðum yfir veturinn á stórum og breyttum jeppum segir Magnús að einnig verði hægt að bjóða upp á ferðir þangað fyrir alla hópa. „Það er gríðarlegur áhugi á að koma upp á hálendið um vetur, en það hefur ekki verið fyrir alla. En að geta búið við góðan kost, gott rúm og baðaðstöðu opnar það fyrir marga,“ segir Magnús.
Á sumrin segir hann að í raun geti allir farið upp í Kerlingarfjöll, enda þurfi ekki að fara yfir óbrúaðar ár. „Við lítum svo á að ef veðrið er í lagi er stórkostlegt að ferðast um svæðið,“ segir hann og bætir við að ætlunin sé að opna staðinn fyrir marga sem hafi ekki áður haft hann á kortinu hjá sér.
Samhliða opnun aðstöðunnar verður gefin út bók í maí sem Íris Marelsdóttir hefur unnið að um svæðið. Segir Magnús að bókin sé um sögu fjallanna, jarðfræði og líffræði svæðisins, auk þess sem þar verði að finna leiðarkafla og kort þar sem sjá megi núverandi og nýjar gönguleiðir sem unnið hafi verið að.
Undanfarin ár hefur Kjölur verið þekktur fyrir svokölluð þvottabretti á veginum með tilheyrandi hristingi fyrir ferðalanga. Magnús segir að reyndar hafi vegurinn verið vel heflaður síðasta sumar og að hann hafi verið nokkuð góður yfirferðar þá. Hins vegar sé Kjalvegur í grunninn niðurgrafinn ýtuslóði sem þýði að snjór festist í vegstæðinu og þegar vorar verður þar blautt, snjórinn situr lengi og vegurinn sé lengi að jafna sig. Magnús tekur fram að hann vilji áfram halda Kjalvegi sem fjallvegi án slitlags, en að skoða þurfi hvort ekki væri betra að hækka hann aðeins umfram umhverfi sitt og gera hann að uppbyggðum malarvegi. Segir hann að slíkt myndi auðvelda til muna opnun vegarins á vorin og að hann myndi einnig haldast opinn lengur fram haustið. Nefnir hann að slíkt myndi t.d. auðvelda til muna aðgang fyrir fjallaskíðafólk á vorin.