Spyr hvað standi í vegi fyrir Strætó á flugvöllinn

Hildur Sverrisdóttir spyr út í málefni Strætó.
Hildur Sverrisdóttir spyr út í málefni Strætó. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur innt innviðaráðherra eftir svörum á því hvers vegna strætisvagnar gangi ekki til og frá Keflavíkurflugvelli.

Spyr hún sérstaklega að því hvort eitthvað sé lögum, samningum við Isavia eða útboðsgögnum til Isavia til verkkaupa sem standi í vegi fyrir að Strætó geti haft biðstöð nærri aðalinn- og útgöngum flugstöðvarinnar og auglýst þjónustu sína innan flugstöðvarinnar.

Spyr hvort Vegagerðin hafi rætt við Isavia

Kynnisferðir, sem eru í eigu fjölskyldu Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, eru annað tveggja fyrirtækja sem annast akstur til og frá flugvellinum um árabil. Aksturinn er boðinn út.

Fyrirspurn Hildar er lögð fram í fjórum liðum:

1. Hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar til að tryggja góðar almenningssamgöngur frá höfuðborginni til Keflavíkurflugvallar?

2. Er eitthvað í lögum, samningum við Isavia eða útboðsgögnum Isavia til verkkaupa sem stendur í vegi fyrir því að Strætó geti haft biðstöð nærri aðalinn- og útgöngum flugstöðvarinnar og auglýst þjónustu sína innan flugstöðvarinnar?

3. Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að bæta aðgengi strætisvagna að Keflavíkurflugvelli svo að almenningssamgöngur verði raunhæfari ferðamáti fyrir þá sem eiga erindi á flugvöllinn?

4. Hefur ráðherra beitt sér fyrir því að Vegagerðin eigi viðræður við Isavia um að koma upp strætisvagnastoppistöð almenningssamgangna nær flugstöðvarbyggingunni og ef svo er: a) hverju hafa þær viðræður skilað b)hefur komið til greina að kaupa eða leigja stæði nær flugstöðvarbyggingunni?

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert