Hætta á að leikmunir True Detective fjúki

Þættirnir True Detective eru teknir upp á Dalvík.
Þættirnir True Detective eru teknir upp á Dalvík. Ljósmynd/Valgeir Ómar Jónsson

„Spáin er að ganga eftir og viðbragðsaðilar eru klárir á þeim stöðum þar sem spáin er verst, á Norðurlandi,“ segir Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi almannavarna, í samtali við mbl.is.

Samráðsfundur al­manna­varna­deild­ar rík­is­lög­reglu­stjóra fór fram klukkan ellefu í dag. Farið var yfir stöðuna og viðbragð á þeim svæðum þar sem veður­spá er slæm. Þá var sam­hæf­ing­ar­stöð al­manna­varna virkjuð klukkan tíu. 

Hafa fært einhverja muni

Á Dalvík er búið að kalla út björgunarsveit en hætta er á að leikmunir í sjónvarpsþáttunum True Detective, sem teknir eru upp í bænum, fari á kreik. 

„Fólk hefur smá áhyggjur af því að það geti orðið foktjón á leikmynd og annað sem er þar,“ segir Hjördís.

Hins vegar segir Hjördís að haft hafi verið samband við framleiðendur þáttanna í gær og þeir varaðir við veðrinu. Í kjölfarið hafi þeir fært einhverja leikmuni inn eða á öruggari stað.

mbl.is